BMW, Saab og Audi

http://www.fib.is/myndir/BMW3.jpg
BMW. Í mestu uppáhaldi norskra bílaáhugamanna.

Margir telja sig hafa það á tilfinningunni að sumar bifreiðategundir séu oftar en aðrar í framúrakstri. Ef þú lesandi góður telur þig hafa einhverskonar huglæga tölfræði um þetta, þá er allt eins líklegt að þessi tilfinning þín sé rétt eftir allt saman. Systurfélag FÍB í Noregi hefur spurt eigendur fjölmargra bifreiðategunda um aksturshætti þeirra og birt niðurstöðurnar í tímariti félagsins. Niðurstöðurnar eru athyglisverðar:

Eigendur og umráðamenn dýrra og hraðskreiðra bíla eins og BMW, Audi og Saab eru samkvæmt könnuninni þeir sem mest eru fyrir að gefa hressilega inn og aka hratt. Þeir viðurkenna fúslega að þeir kunni best við sig á framúrakstursakreininni lengst til vinstri á hraðbrautunum.

Könnunin er í raun hluti af svonefndri Auto Index könnun þar sem eigendur bíla eru spurðir um allt sem viðkemur bílum þeirra, kaupum, viðmóti sölu- og þjónustuaðila, rekstur bílsins og hvernig hann er í notkun og í akstri. Þeir eigendur Audi, BMW og Saab sem spurðir voru segjast í könnuninni hafa mikla ánægju af því að aka vönduðum, hraðskreiðum og öflugum bílum. Þessvegna hafi þeir valið sér tegundir og gerðir sem geri þeim það mögulegt.Þeir segjast einnig vera mjög ánægðir með bíla sína.

Auto Index könnunin sýnir líka að einmitt ökumenn þessara tegunda eru þeir sem oftast fá sektir fyrir hraðabrot. En hún sýnir hins vegar ekki að þessi hópur sé háskalegri í umferðinni en aðrir og lendi oftar í slysum og óhöppum, síður en svo. Niðurstöðurnar benda þvert á móti til þess að þeir séu öruggir ökumenn sem búi yfir mikilli akstursreynslu.

Norskur félagsfræðingur sem tímarit hins norska systurfélags FÍB ræðir við um málið segist ekki hissa á niðurstöðunum og því að eigendum BMW og Audi bíla þyki gaman að keyra bíla sína. Þessum bílategundum sé ætlað að höfða til ákveðins markhóps og bæði Audi og BMW leggi mikið upp úr sportlegum aksturseiginleikum bílanna og akstursánægju. Könnunin staðfesti að einmitt það hafi tekist og að samræmi sé milli væntinga kaupendanna og eiginleika bílanna sjálfra. Kaupendurnir telja sig hafa valið rétt.
Mercedes Benz og aðrir sem leggi mesta áherslu tæknihliðina þurfi ekki að vera undrandi á því að bílar þeirra séu ekki í efstu sætunum hjá þeim sem vilja hraðskreiða bíla umfram allt.

Hér má sjá lista yfir þá bíla sem hinir hraðaglöðustu í Noregi hafa í mestum metum:

1. BMW
2. Saab
3. Audi
4. Volvo
5. Ford
6. Subaru
7. Mercedes
8. Citroën
9. Peugeot
10. Renault

Hjá hinum hraðaglöðu er Suzuki sú bílategundin sem er í minnstum metum, þá Chrysler og síðan Kia - talið neðan frá og upp.