BMW þykir sá besti í Danmörku

The image “http://www.fib.is/myndir/BMW3_2005Lit.jpg” cannot be displayed, because it contains errors. The image “http://www.fib.is/myndir/Fiat-cromaLit.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
BMW - sá besti í augum Dana og Fiat - sá versti.
Um þessar mundir eru að birtast niðurstöður í ánægjukönnun sem gerð er meðal bíleigenda í Evrópulöndum. Könnunin nefnist Auto-Index og eru eigendur bíla spurðir um hvaðeina er varðar bíla þeirra, hvernig bíllinn standi sig, hvernig sé að aka honum, þjónusta hann, hvernig viðmót sölu- og viðgerðaaðila sé o.s.frv. Systurfélag FÍB í Danmörku, FDM gerir Auto-Index könnunina þar í landi og birtir nýjustu niðurstöðurnar í félagsblaðinu FDM-Motor. Þær bílategundir sem Danir eru ánægðastir með eru BMW, Saab og Toyota.
Baráttan um efsta sætið í þessari ánægjuvog er hörð en BMW vinnur slaginn á tvennu. Bílarnir þykja traustir og lítt bilanagjarnir og trú og tryggð bíleigenda við vörumerkið er sterk. Mestur styrkur Toyota er hins vegar fólginn í ánægju með þjónustuna hjá bæði sölu- og viðgerða/þjónustuaðilum. Saab hefur stöðugt verið að sækja fram í Danmörku frá því fyrsta Auto-Index könnunin í Danmörku var gerð 2003 og hefur dregið á Toyota.
Enn og aftur vermir Fiat botnsætið. Það sem mest dregur tegundina niður er það að eigendur eru hundóánægðir með sjálfa bílana. Hins vegar hafa Fiatverkstæðin mjög sótt í sig veðrið frá síðasta ári því að Fiateigendur eru, þótt merkilegt kunni að sýnast, nokkuð ánægðir með frammistöðu verkstæðanna. Í því tilliti eru Fiatverkstæðin yfir meðallagi.
Í fyrra voru Mitsubishi eigendur mjög óánægðir með söluaðilana. Úr óánægjunni hefur mjög dregið nú en Mitsubishi verkstæðin fá enn slæma útreið, reyndar þá verstu, því að þau eru í neðsta sætinu – því 23.
Minnst ánægja með söluaðila er gagnvart söluaðilum Kia í Danmörku en Kia er nýtt bílmerki í hinu danska Auto-Index. Kia kemur ekki sterkur inn og hafnar í þriðja neðsta sætinu. Þá vekur athygli að mest seldu bílategundirnar í Danmörku; Suzuki og Peugeot eru vel undir meðallagi á heildina litið. Meginástæða slaks gengis þessara bíla er að eigendurnir hafa ekki háar hugmyndir um gæði þeirra eða eiginleika. Suzukibílar voru talsvert hátt metnir í síðustu könnun en falla nú úr fjórða sæti niður í 17. sæti.