BMW virkjar Triumph á ný

Þýskir bílafjölmiðlar greina frá því að BMW í Munchen hafi um síðustu áramót skráð vörumerkið Triumph til nota á farartæki, fatnað, úr, klukkur og skartgripi. Spurning er svo hvers konar farartæki muni í framtíðinni bera þetta fyrrum þekkta breska sportbílamerki? Má vænta þess að Triumph Spitfire sportbíllinn rísi aftur upp eins og Fönix úr öskunni eða Triumph Herald sem myndin er af?

Af hálfu BMW er ekkert gefið upp um fyrirætlanir með  þetta fornfræga vörumerki en vitnað í ónefnda heimildamenn innan BMW sem lengi hafi talað um nýja línu rafbíla sem skuli heita Triumph. Fyrir á BMW hin gömlu og frægu bresku vörumerki Rolls Royce og Mini og framleiðir bíla undir báðum nöfnunum. Einnig er gamalt sænskt vörumerki; Husquarna, fyrir mótorhjól og margskonar smávélar í eigu BMW.

Árið 1994 keypti BMW breska bílafyrirtækið Rover sem þá var við dauðans dyr. Með í þeim kaupum fylgdu fjölmörg gamalkunn vörumerki. Stefnt var að samrekstri og að Rover og BMW skiptust á tækniþekkingu. Þegar þetta samstarf misheppnaðist meira og minna þá seldi BMW Rover til bresks fjárfestingafélags en hélt eftir nokkrum gömlum vörumerkjum, þeirra á meðal Mini enda var þá búið að hanna hinn nýja Mini og framleiðsla hafin. Breska fjárfestingafélagið stofnaði eftir kaupin á Rover nýtt félag með hinum tignarlega heiti Rover Group. Rover Group fór svo  á hausinn árið 2005.

Þegar BMW eignaðist Rover árið 1994 fylgdu með í kaupunum fornfræg bresk bílamerki eins og Rover, MG, Sunbeam, Singer, Riley auk Triumph vörumerkisins. Þessi fornfrægu bílamerki hafa síðan verið í biðstöðu þangað til nú að Triumph er að verða virkt vörumerki á ný.