Umhverfis og skipulagsráð hyggst ótrautt lækka hraðamörk á þjóðvegunum vestan Kringlumýrarmýrarbrautar

Meirihluti ,,ráðsmanna“ í um­hverf­is- og skipu­lags­ráði Reykjavíkur samþykkti í gær áætlun tveggja manna starfshóps ráðsins um að lækka hámarkshraða  á Sæbraut, Miklubraut og Hringbraut vestan Kringlumýrarbrautar. Meirihluti ráðsins felldi jafnframt tillögu um að leitað yrði umsagnar Vegagerðar, Samgöngustofu og lögreglu áður en skýrsla starfshópsins fyrrnefnda yrði endanlega afgreidd. Sæbrautin, Miklabrautin og Hringbrautin eru þjóðvegir og því í forsjá Vegagerðarinnar.

   Starfshópur umhverfis- og skipulagsráðs um lækkun hámarkshraðamarka á umræddum vegum skilaði lokaskýrslu í janúar sl. Hópinn skipuðu þrír fulltrúar. Tveir voru atkvæðisbærir en sá þriðji var áheyrnarfulltrúi. Atkvæðisbæru fulltrúarnir tveir, þeir Sverrir Bollason fulltrúi borgarstjórnarmeirihlutans og Ólafur Kr. Guðmundsson Sjálfstæðisflokki urðu ekki sammála um hraðalækkunina og skiluðu hvor sínu álitinu. Þar sem Sverrir var formaður þessa tveggja manna starfshóps þá hefur meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs nú afgreitt álit hans og gert að sínu. Í því felst að hraði á Hring­braut og Miklu­braut, vest­an Kringlu­mýr­ar­braut­ar verði lækkaður úr 50 km í 40 og á Sæ­braut úr 60 km í 50.

Hér á eftir má sjá hvernig afgreiðsla þessa máls fór fram í umhverfis- og skipulagsráði í gær samkvæmt fundargerð ráðsins:

..27. Umferðarhraði í Reykjavík, starfshópur, erindisbréf, skýrsla starfshóps   Mál nr. US150259

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 22. júní 2016 var lögð fram til kynningar drög að skýrslu starfshóps, dags. 1. júní 2016, um umferðarhraða vestan Kringlumýrarbrautar. Erindið lagt fram að nýju ásamt skýrslu starfshóps og tillögu dags. í janúar 2017.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Halldór Halldórsson og Marta Guðjónsdóttir leggja fram eftirfarandi tillögu:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Halldór Halldórsson og Marta Guðjónsdóttir leggja til að áður en tillögur í skýrslu starfshóps um umferðarhraða vestan Kringlumýrarbrautar verða samþykktar verði óskað eftir umsögnum eftirtalinna: Vegagerðin, Lögreglan, Samgöngustofa og Samtök sveitarfélaga.

Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins Halldórs Halldórssonar og Mörtu Guðjónsdóttur borin upp til atkvæðagreiðslu og felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar Hjálmars Sveinssonar og Sverris Bollasonar, fulltrúa Bjartrar framtíðar Magneu Guðmundsdóttur og fulltrúa Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs Gísla Garðarssonar gegn þrem atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks Halldórs Halldórssonar og Mörtu Guðjónsdóttur og fulltrúa framsóknar og flugvallarvina Sveinbjargar B. Sveinbjörnsdóttur

Fulltrúar Samfylkingarinnar Hjálmar Sveinsson og Sverrir Bollason, fulltrúi Bjartrar framtíðar Magnea Guðmundsdóttir og fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs Gísli Garðarsson og áheyrnarfulltrúi Pírata Sigurborg Ósk Haraldsdóttir bóka:

Í skýrslunni er tekið fram að vinnan verði kynnt víða, s.s. í hverfisráðum borgarinnar. Ekki verður séð að mikið sé unnið með því að leita samráðs um stefnumörkun sem lögð er í tillögum meirihluta starfshópsins á þessu stigi málsins. Þegar stakar aðgerðir koma til framkvæmda verður samráð haft við viðeigandi málsaðila.

Skýrsla starfshópsins samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar Hjálmars Sveinssonar og Sverris Bollasonar, fulltrúa Bjartrar framtíðar Magneu Guðmundsdóttur og fulltrúa Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs Gísla Garðarssonar gegn þrem atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks Halldórs Halldórssonar og Mörtu Guðjónsdóttur og fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina Sveinbjargar B. Sveinbjörnsdóttur

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Halldór Halldórsson og Marta Guðjónsdóttir bóka:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Halldór Halldórsson og Marta Guðjónsdóttir taka ekki undir með meirihlutanum í umhverfis- og skipulagsráði um að starfshópur um umferðarhraða vestan Kringlumýrarbrautar hafi getað sýnt fram á gagnsemi þess að lækka umferðarhraða 50 í 40 og 60 í 50 km/klst á Miklubraut og Sæbraut, með tilliti til umferðarflæðis, umferðaröryggis og umhverfisþátta. Hins vegar er góð samstaða um lækkun niður í 30 km. hraða í fjölda tilvika. Mikilvægt er að halda í þá hugmyndafræði að halda umferðarhraða sem lægstum í íbúagötum en að stofnleiðir hafi góða flutningsgetu. Annars er hætt við því að umferð færist inn í íbúagötur með aukinni áhættu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Starfshópurinn getur ekki sýnt fram á aukið öryggi vegfarenda með því að lækka umferðarhraða úr 50 í 40 og úr 60 í 50 km. hraða. Hins vegar er ljóst að þessar tillögur munu draga úr umferðarflæði, auka mengun, lengja ferðatíma borgarbúa en draga ekki úr hættu fyrir gangandi vegfarendur enda verða flest slys á ljósastýrðum gatnamótum. Einbeita þarf sér að umbótum á þeim gatnamótum, byggja göngubrýr og/eða undirgöng.

Fulltrúar Samfylkingarinnar Hjálmar Sveinsson og Sverrir Bollason, fulltrúi Bjartrar framtíðar Magnea Guðmundsdóttir og fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs Gísli Garðarsson og áheyrnarfulltrúi Pírata Sigurborg Ósk Haraldsdóttir bóka:

Meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs bendir á að fullyrðingar sem koma fram í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks er öllum svarað í skýrslu starfshópsins. Meirihlutinn kýs að styðjast við innlendar og erlendar rannsóknir sem sýna ótvírætt fjárhagslega og umhverfislega kosti þess að draga úr umferðarhraða á þeim götum sem lagt er til. Mikill samfélagslegur ávinningur liggur í auknu öryggi og bættum umhverfisgæðum fyrir íbúa borgarinnar.“