Boris vill gömlu leigubílana burt

Boris Johnson borgarstjóri í London er litríkur náungi en líka umdeildur. Nýlega sagðist hann vilja losna við svörtu leigubílana úr borginni. Þessir bílar hafa um áratugi verið einskonar einkenni borgarinnar og að margra mati eitt þess sem gerir borgina heimsóknar virði. Fjöldi fólks hefur brugðist ókvæða við yfirlýsingu borgarstjórans.

http://www.fib.is/myndir/Boris_johnson_3.jpg
Boris Johnson borgarstjóri.

 En til að hafa þetta rétt þá eru það ekki allir svörtu leigubílarnir sem borgarstórinn vill burt úr London (enda eru þeir heldur alls ekki allir svartir), heldur þeir af hinum hefðbundnu Lundúnaleigubílum sem orðnir eru tíu ára og eldri og þeir eru margir og margir þeirra í það góðu ástandi að þeir eru líklegir til að endast minnst tíu ár í viðbót. Hefðbundnu Lundúnaleigubílarnir eru yfirleitt mjög sterkir og endingargóðir. Sú mynd þeirra sem flestir minnast sem heimsótt hafa London var lengstum byggð af Austin sem síðar fékk nafnið BMC og enn síðar British Leyland. Vélarnar í þeim hafa síðustu áratugina verið dísilvélar sem margir muna eftir úr Austin Gypsy jeppanum sem hér var nokkuð algengur upp úr miðri 20 öld. Síðan komu Land Rover dísilvélar en ending þeirra olli vonbrigðum. Síðustu árin hafa vélarnar verið frá Nissan.

http://www.fib.is/myndir/Austin_1957.JPG.jpg
Austin Lundúnataxi frá 1957.

 Það eru ekki síst bílarnir með gömlu bresku Austin, Land Rover og Leyland dísilvélunum sem borgarstjórinn vill losna sem fyrst við. Hugmynd hans er sú að bílarnir sem eru 15 ára og eldri fá ekki endurnýjað leiguakstursleyfið árið 2012 og allir tíu ára og eldri bílar skulu horfnir úr umferðinni 2015. Ástæðan er sú að dísilmengun í miðborg London er töluverð og sú hæsta í Evrópu og langt yfir viðmiðunarmörkum Evrópusambandsins.

 Mörgum finnst borgarstjórinn ganga heldur langt að beina sjónum eingöngu að leigubílunum. Þeir séu varla einu orsakavaldar öragnamengunarinnar frá dísilvélum í borginni. Þá benda hinir sömu á að um margra ára skeið hafi gilt sérstök og há gjaldtaka fyrir að aka bílum inn á ákveðin svæði í miðborginni til að takmarka bílaumferð. Ekki verði séð að það fyrirkomulag hafi gagnast mikið til að draga úr menguninni. Skoða verði því fleiri þætti en leigubílana, t.d. strætisvagnana og ferjurar á Thames ánni og margt fleira.