Bremsuvandamál í nýja Priusnum?

Vefsíða Automotive News Europe segir í frétt í dag að í framhaldi af kvörtunum vegna slappra hemla í nýja Príus bílnum hafi Toyota um tíma skipt út hugbúnaði sem stjórnar hemlunum áður kaupendur tóku við þeim. Kaupendurnir hafi ekki verið látnir vita af viðgerðinni og óvissa sé nú komin upp um hvað eigi að gera í málinu gagnvart þeim þúsundum bíla sem seldir voru áður en þessar viðgerðir hófust. Þetta kom fram á blaðamannafundi Toyota í Japan í morgun.

Þetta umrædda hemlavandamál mun einvörðungu hafa komið fram í nýju kynslóðinni af Prius en sala á henni hófst sl. haust í Bandaríkjunum, Japan og Evrópu. Yfirvöld umferðaröryggismála og neytendastofnanir hafa undanfarið tekið á móti kvörtunum undan því að hemlarnir virki ekki rétt við tilteknar aðstæður. Japanska samgönguráðuneytið hefur  fengið 38 slíkar kvartanir frá því sala á bílnum hófst í landinu í júlímánuði sl. og 102 hafa borist NHTSA í Bandaraíkjunum.  Í framhaldinu hefur japanska samgönguráðuneytið fyrirskipað Toyota Motor Corp. að rannsaka málið í þaula og innkalla bilana ef þörf krefur.

Á blaðamannafundinum í Tokyo í morgun sagði Hiroyuki Yokoyama framkvæmdastjóri hjá Toyota að  bremsurnar virkuðu slappar  vegna þess að þær „hikuðu“ þegar hemlunin skipti frá vélarhemlun (endurvinnslu á hreyfiorku bílsins í rafstraum) yfir í hefðbundna ABS hemlun. Þetta gæti komið fram á hálku eða á holóttum vegi og kvartanir hefðu tekið að berast vegna þessa í desembermánuði þegar hálku tók að gæta og framkallaði tíðari innkomu hins hefðbundna ABS hemlabúnaðar bílsins.

„Þegar ABS kerfið kemur inn finnst ökumanni sem bíllinn skriki, en þá er um að gera að standa áfram fast á bremsunni, þá vinna hemlarnir rétt. Þetta getur vakið viðskiptavinum okkar smá ugg í brjósti,“ sagði Yokohama.

Toyota uppfærði hugbúnaðinn sem stjórnar hemluninni seint í janúar. Uppfærslan styttir þann tíma sem umskipti verða frá vélarhemlun til hefðbundinnar ABS hemlunar bílsins. Allir nýir Priusbílar sem renna af færibandinu í Japan eru með nýju uppfærslunni og er sett í þá bíla sem koma inn til hefðbundins þjónustueftirlits. Yokohama sagði að framkvæmdin hefði verið með þessum hætti hjá Toyota vegna þess að allt frá því að kvartanir tóku að berast hefði fyrirtækinu verið umhugað um að laga bílana í hvelli þótt að án lagfæringar uppfylltu bílarnir allar kröfur um hemlun og hemlunareiginleika.