Bretar ætla að flýta sölubanni á dísil- og bensínbílum

Frá og með árinu 2035 stefna bresk stjórnvöld að því að sala á nýjum dísil-, bensín og blendingsbílum verði bönnuð þar í landi. Áður voru áform uppi að bannið tæki í gildi 2040.

Breskir fjölmiðlar segja frá því í dag að stjórnvöld ætli að tilkynna bannið á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í Glasgow í lok þessa árs. Markmiðið er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum og loftmengun.

Í dag eru 90% seldra bíla í Bretlandi dísil- og bensínbílar. Þegar hefur komið fram að nokkur ríki í Evrópu stefna að því að sala á dísil-, bensín og blendingsbílum verði bönnuð fyrir 2040.