Breyta bensíni í dísilolíu

Eins og bíleigendur vita fólks best er dísilolían orðin talsvert dýrari en bensínið, öfugt við það sem áður var. En vegna þess að dísilvélar í bílum eru nýtnari á orkuna í eldsneytinu en bensínvélar og brenna því færri lítrum á hvert hestafl en bensínvélarnar, þá hafa dísilvélarnar verið hagkvæmari í rekstri. Það er ein skýringin á því hversu vinsældir dísilfólksbíla hafa aukist, sérstaklega í Evrópu. En það er líka hluti skýringarinnar á vaxandi vinsældum dísilvélanna hversu miklar framfarir hafa orðið í framleiðslu þeirra og eiginleikum. Nýjustu dísilvélar eru ekki lengur þungar, háværar, grófgengar, hæggengar og reykjandi.

En eftir því sem verðmunurinn eykst dísilolíunni í óhag, hefur þessi ávinningur eigenda dísilbílanna verið að étast upp. Í dag er hann orðinn harla lítill hér á Íslandi satt að segja og fer minnkandi. En af hverju hefur dísilolían hækkað svona í verði?

Að hluta til er bensín aukaafurð sem verður til þegar framleidd er dísilolía úr jarðolíu. Það er skýringin á því hvers vegna bensín lækkar gjarnan í verði á heimsmarkaði að afstöðnum löngum og köldum vetrum. Þegar vetur eru kaldir eins og í Evrópu nú, þá framleiðir olíuiðnaðurinn meir af húsahitunarolíu og við það verður til meira af aukaafurðinni bensíni sem safnast upp og verðið lækkar. Og með mikilli fjölgun dísilbíla hefur eftirspurn eftir dísilolíu á bíla aukist og verðið hækkað og framboð af bensíni um leið aukist og verðið lækkað.

Í öllum heimshornum stendur nú yfir mikil leit að öðrum orkugjöfum fyrir bíla og betri aðferðum í olíuiðnaðinum til að nýta betur jarðolíuna, til dæmis með því að jafna út þeim sveiflum milli bensíns og dísilolíu sem hér hefur verið lýst. Þegar hlýna tekur í Evrópu í vor eftir langan kuldavetur má sem fyrr segir reikna með því að miklar birgðir af bensíni verði til staðar en hörgull verði á dísilolíu. Olían mun því líklega hækka enn meir í verði en bensínið jafnvel lækka.

En nú telur hópur vísindamanna við Stokkhólmsháskóla sig hafa fundið aðferð til að breyta bensíni yfir í dísilolíu þannig að jafna megi út þessum mismun í framboði á bensíni og dísilolíu að einhverju leyti í það minnsta. Vísindamannahópurinn hefur birti um þetta grein í vísindatímaritinu Nature Chemistry. Lesa má stuttan úrdrátt úr greininni hér. Einnig er hægt að kaupa greinina í heild sinni.