Breytingar kynntar á umferðarlögum til að auka öryggi vegfarenda

Drög að frumvarpi um breytingar á umferðarlögum hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar að þvíer fram kemur í tilkynningu frá innviðarráðuneytinu. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila umsögn er til og með 6. október 2022. 

Í frumvarpsdrögunum eru ýmis ný ákvæði sem hafa það markmið að auka öryggi vegfarenda á smáfarartækjum í umferðinni en nýta jafnframt kosti þeirra. Breytingarnar byggja á tillögum starfshóps um smáfarartæki sem skilaði skýrslu í júní sl.  Helstu tillögur frumvarpsins sem varða smáfarartæki eru:

  • Mælt er fyrir um að heimilt sé að aka smáfarartæki á vegi þegar leyfilegur hámarkshraði er ekki meiri en 30 km á klst. en veghaldara sé þó heimilt að leggja bann við umferð þeirra á einstökum vegum eða vegarköflum. 
  • Börnum yngri en 13 ára er bannað að aka smáfarartækjum og kveðið er á um hjálmaskyldu barna yngri en 16 ára við akstur slíkra farartækja.
  • Sett er hlutlægt viðmið um ölvun ökumanns smáfarartækis sem fela í sér sömu mörk og eiga við akstur vélknúinna ökutækja og jafnframt um viðurlög við slíkum brotum.
  • Mælt er fyrir um að óheimilt sé að eiga við rafmagnsreiðhjól, smáfarartæki eða létt bifhjól í flokki I svo að hámarkshraði þeirra verði umfram 25 km á klst. Sama á við um létt bifhjól í flokki II að undanskildu því að hámarkshraði þeirra má vera 45 km á klst.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, sagði frá áformunum sem kynnt voru á Umferðarþingi 2022 í morgun en eitt meginviðfangsefni þingsins var öryggi óvarinna vegfarenda í umferðinni

„Með því að ferðast stuttar vegalengdir gangandi, hjólandi eða með strætó drögum við úr losun gróðurhúsaloftegunda, stuðlum að betri loftgæðum í þéttbýli og vinnum að bættri lýðheilsu. Það stafa þó ýmsar hættur að óvörðum vegfarendum. Því er nauðsynlegt að gera breytingar á regluverki umferðar til að auka öryggi þeirra sem nýta þennan fararmáta, m.a. á smáfarartækjum,“ sagði ráðherra. 

Tillögur starfshóps um smáfarartæki voru einnig kynntar sérstaklega á Umferðarþingi í erindi Jónasar Birgis Jónasson, sérfræðings í innviðaráðuneytinu.

Slysum vegna smáfarartækja fjölgað mikið

Í kynningu um frumvarpið í samráðsgátt segir að umferð smáfarartækja, sérstaklega rafhlaupahjóla, hafi aukist og slysum hafi fjölgað mikið á síðustu árum. Breytingar á umferðarvenjum hafa leitt til þess að 17% þeirra sem slösuðust alvarlega í umferðinni á síðastliðnu ári voru á rafhlaupahjólum, en umferð þeirra er þó innan við 1% af allri umferð. 42% alvarlega slasaðra í umferðinni á síðasta ári voru gangandi, hjólandi eða á rafhlaupahjóli og stór hluti fyrrgreindra slysa átti sér stað seint á föstudögum eða laugardögum.

Í hópi óvarinna vegfarenda sem slösuðust alvarlega í umferðinni á síðastliðnu ári voru ungmenni áberandi og komu mörg ung börn, allt niður í átta ára gömul á neyðarmóttöku Landsspítalans vegna slysa á rafhlaupahjólum. Framleiðendur mæla almennt fyrir um 14 til 16 ára aldurstakmark til notkunar rafhlaupahjóla sinna en ung börn má sjá á rafhlaupahjólum ætluðum eldri notendum. Þá er með einfaldri breytingu hægt að aka aflmiklum rafhlaupahjólum á mun meiri hraða en þeim er ætlað að ná, svo að þau eiga til dæmis enga samleið með umferð gangandi vegfarenda.