Breytt ljósastýring á gatnamótum Suðurlandsbrautar og Reykjavegar
Til að auka öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda verður ljósastýring á gatnamótum Suðurlandsbrautar og Reykjavegar uppfærð fimmtudaginn 15. maí 2025. Á meðan á framkvæmdum stendur verða umferðarljósin óvirk frá kl. 19:00 til 20:00 að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Breytingarnar fela í sér uppsetningu á ratsjáskynjara á hægribeygjuakrein frá Suðurlandsbraut inn á Reykjaveg. Einnig verður sett upp nýtt þrefalt ljósker (rautt/gult/grænt) í stað einfalds græns ljóss sem er nú til staðar.
Með þessum aðgerðum verður hægt að stýra umferð betur og tryggja að gangandi og hjólandi vegfarendur fái öruggt aðgengi yfir göturnar. Í kjölfarið verður ljósastýringin endurstillt þannig að ökutæki á hægribeygjuakrein fái sjálfstætt grænt ljós, sem verður ekki á sama tíma og grænt ljós fyrir gangandi og hjólandi.
Hægribeygjuumferð mun eftir breytinguna fá grænt ljós samtímis og umferð sem kemur frá Reykjavegi inn á Suðurlandsbraut.