Breytt markaðsstefna hjá GM í USA

The image “http://www.fib.is/myndir/Chevroavalanche.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Chevrolet Avalance
General Motors gengur ekki vel á hinum risastóra heimamarkaði þar sem fyrirtækið fyrr meir réði lögum og lofum. GM hefur verið að tapa markaðshlutdeild – gæði framleiðslunnar hafa þótt upp og ofan og færri og færri Bandaríkjamenn vilja stóru fólksbílana og pallbílana. Efnahagsástandið hjá bílarisanum er því ekki upp á það besta sem stendur og nú vilja menn reyna að snúa við blaðinu.
Þeir sem rýna í strauma og stefnur á bílamarkaðinum telja sig fyrir löngu hafa komið auga á að yfirstjórn GM hafi ekki skilið tíðarandann og brugðist of seint við og misst markað í hendur japanskra bílaframleiðenda ekki síst. En nú sjást merki þess að GM sé að vakna upp við vondan draum og nýlega ákvað stjórn GM að leggja megináhersluna á vörumerkin Chevrolet og Cadillac. Einungis undir þeim merkjum verði boðið upp á bíla í öllum stærðum og gerðum að sögn varaformanns stjórnar GM í samtali við Detroit News. Aðspurður segir varaformaðurinn að þetta þýði að nöfnin Pontiac, GMC, Buick, Saturn og Saab hætti að vera til sem sjálfstæð vörumerki heldur einungis sem sérgerðir af Chevrolet og Cadillac, t.d. sem blæjubílar. Að vísu fái Hummer áfram að lifa eigin sjálfstæðu lífi með sínar þrjár gerðir.
En þetta þýðir líka að sölukerfi GM í Bandaríkjunum breytist og einfaldast þannig að framvegis verða öll GM vörumerki önnur en Hummer seld á sömu útsölustöðum. Hingað til hafa þau verið kirfilega aðskilin. Sér útsölustaðir hafa þannig verið fyrir t.d. Pontiac, sér fyrir Chevrolet, sér fyrir Cadillac, sér fyrir Saab og sér fyrir Oldsmobile sem reyndar var aflagt sl. ár.
The image “http://www.fib.is/myndir/Chevro-malibu.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Chevrolet Malibu - það sem koma skal hjá GM - á stærð við Toyota Carina.