Brimborg Bílorka með hraðhleðslustöðvar vítt og breitt um landið

Brimborg Bílorka opnaði nýlega tvær hraðhleðslustöðvar á Þórshöfn sem gerir rafbílanotendum kleift að ferðast áhyggjulaust alla leið á Langanes. Stöðvarnar eru góð viðbót í vaxandi net hraðhleðslustöðva á landinu sem auðveldar rafbílanotendum lífið.

Uppsetning hraðhleðslustöðva Bílorku er í samstarfi við Gistiheimilið Lyngholt á Þórshöfn. Önnur þeirra er sett upp við ENN 1 SKÁLANN og hin er við gistiheimilið sjálft. Sú stöð mun einnig nýtast viðskiptavinum nýs veitingastaðar Holtið Kitchen Bar sem opnar í sumar í félagsheimili staðarins og mun laða að enn fleiri ferðamenn til Þórshafnar.

Hraðhleðslustöðvar hafa sprottið upp eins og gorkúlur víðsvegar um landið undanfarin ár og eru nú 147 talsins (skv. plugshare.com) með hátt í 400 hraðhleðslutengi sem hefur gert ferðalög á rafbílum sífellt þægilegri. Norðausturhornið hefur setið á hakanum en nú verður breyting á.

Brimborg Bílorka hefur sett upp 12 hraðhleðslustöðvar á síðustu 12 mánuðum og meðal annars þá öflugustu á landinu sem er 600 kW stöð í Reykjanesbæ sem getur hlaðið 8 rafknúin ökutæki í einu. Markmið Brimborgar Bílorku er að efla samkeppni á rafhleðslumarkaði og bjóða framúrskarandi þjónustustig sem er það sem af er ári 99,4%.