Brimborg og BL bjóða þeim aðstoð sem átt hafa viðskipti við Procar

Bílaumboðin Brimborg og BL hafa sent frá yfirlýsingu vegna þeirra stöðu sem komin er upp varðandi notaða bíla frá bílaleigunni Procar og ólögmætra breytinga á kílómetramælum. Í yfirlýsingu Brimborgar kemur fram að fyrirtækið hefur aldrei og mun aldrei eiga við kílómetrastöður bíla á nokkurn hátt og allar útleigur, skil og kílómetrastöður bílaleigubíla eru skráðar í upplýsingatæknikerfi okkar og rekjanlegar niður á bíl, kerfisnotanda (starfsmann), skráningardag og ástæðu uppfærslu. Við fögnum öllu eftirliti og bjóðum eftirlitsaðila velkomna.

Strangt eftirlit með km. stöðu bílaleigubíla Brimborgar

Fjórfaldur rekjanleiki er á km. stöðu bílaleigubíla Brimborgar en km. eru skráðir í mjög öflugt upplýsingatæknikerfi Brimborgar og hafa allir starfsmenn skoðunaraðgang að km. stöðu allra bíla sem tryggir gagnsæi.

  • Við útleigu skráir bílaleigustarfsmaður km. stöðu bíls í upplýsingatæknikerfið og km. staða skráist um leið á leigusamning
  • Við skil skráir bílaleigustarfsmaður km. stöðu bíls í upplýsingatæknikerfið
  • Við reglubundna þjónustu skráir bifvélavirki km. stöðu bíls í upplýsingatæknikerfið
  • Ökuriti frá þriðja aðila er í öllum bílaleigubílum Brimborgar og sendir ökuritinn daglega sjálfvirkar færslur um km. stöðu í upplýsingatæknikerfið

Ekki er hægt að leigja út bíl né skila bíl úr leigu án þess að skrá km. stöðu og ekki er hægt að skrá lægri stöðu en þegar liggur fyrir í kerfinu. Undirritaðir leigusamningar með skráðri km. stöðu eru aðgengilegir hjá Brimborg í þrjú ár eftir skil leigutaka í samræmi við lög nr. 65/2015.

Í fimmta lagi tekur óháður starfsmaður á skrifstofu vikulegt, tilviljunarkennt, úrtak úr bílaflota leigunnar og sannreynir km. stöðu bíla í úrtaki ásamt því að skoða leigusamninga, útleigu og skil og þjónustuskoðanir og stemmir af við daglegar ökuritaskráningar. Gögn úr því eftirliti eru vistuð á öruggum stað svo hægt að rýna síðar.

Sem leyfishafi fyrir Dollar og Thrifty sem eru í eigu Hertz samstæðunnar gengst Brimborg undir kröfur samkvæmt þeim leyfissamningum m.a. fyrirvaralausar úttektir á starfsemi bílaleigureksturs Brimborgar. Þannig úttekt var gerð á Brimborg sumarið 2017 þar sem meðal annars var farið yfir akstur og km. stöðu bíla og stóðst Brimborg úttektina með láði. Margvíslegar aðrar kröfur eru gerðar eins og um gæði bílanna og ákveðinn hámarksakstur.

Bílaleigubílar Brimborgar fara í reglulegar þjónustuskoðanir skv. ferli framleiðanda og þegar bílaleigubílar fara í sölu þá eru þeir yfirfarnir af bifvélavirkjum Brimborgar, þeir lagfærðir, km. staða staðfest, bílarnir þrifnir og að lokum settir í sölu. Með þessu ferli er tryggt að allir bílaleigubílar í sölu hjá Brimborg eru í framúrskarandi ástandi, km. staðan er rétt og bílarnir hafa jafnvel fengið meiri og betri þjónustu en aðrir bílar á markaði fyrir notaða bíla.

Brimborg aðstoðar bíleigendur sem hafa keypt Procar bíla

Brimborg hefur selt Procar nýja bíla eins og mörg önnur bílaumboð. Procar hefur í flestum tilvikum selt þá bíla beint eftir notkun í bílaleigu Procar. Þeir bíleigendur sem eiga bíla af tegundum sem Brimborg er umboðsaðili fyrir og hafa keypt þá af Procar geta haft samband við starfsmenn Brimborgar sem munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að aðstoða eigendur við að komast að því hvort átt hafi verið við km. stöðu bílanna. Nú þegar hafa 13 viðskiptavinir haft samband við Brimborg, sex höfðu keypt bílana af Brimborg sem hafði tekið þá uppí af Procar en hinir sjö voru keyptir beint af Procar.

Hafa skal samband á eftirfarandi hátt varðandi fyrirspurn um km. stöður einstakra bíla:

  • Fyrir bíla af gerðinni Mazda, Citroën og Peugeot: Benný Ósk, sölustjóri, bennyh@brimborg.is
  • Fyrir bíla af gerðinni Ford og Volvo: Gísli Jón, sölustjóri, gjb@brimborg.is
  • Fyrir aðrar gerðir en að ofan greinir skal hafa samband við Benný Ósk.

Í fyrirspurninni þarf að koma fram nafn eiganda bílsins, sími, netfang og bílnúmer.

Yfirlýsing frá BL

Í yfirlýsingu frá BL kemur fram að vegna þeirrar stöðu sem komin er upp varðandi notaða bíla frá bílaleigunni Procar og ólöglegra breytinga á kílómetramælum bíla í flota leigunnar vill BL ehf. koma þeim eindregnu skilaboðum til viðskiptavina sinna að haft verður samband við alla sem keypt hafa bíla frá Procar hjá BL eða Bílalandi, endursölufyrirtæki BL með notaða bíla.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum keypti og seldi BL / Bílaland alls 185 bíla frá Procar á árunum 2011 til 2017 en engan bíl á árinu 2018. BL hefur farið þess á leit við lögmannsstofuna Draupni, sem fer með málið fyrir hönd Procar, að framkvæma úttekt á öllum bílunum 185 til að ganga úr skugga um við hvaða bíla Procar átt var við kílómetramælinn í. Lögmannstofan hefur gefið sér tveggja vikna frest til að ljúka úttektinni.

Jafn skjótt og BL berast upplýsingarnar frá Draupni um það við hvaða bíla Procar átti mun BL hafa samband við eigendur bílanna til að upplýsa þá um stöðuna. Á það jafnt við um þá bíla sem eru með ranga kílómetrastöðu og þá sem Procar átti ekki við. 

Það á enn eftir að koma í ljós hvernig bótagreiðslum verður háttað gagnvart þeim sem keypt hafa bíl frá Procar á röngum forsendum. Eins og áður segir fer lögmannsstofan Draupnir með málið fyrir hönd Procar og á þessu stigi málsins hefur enn ekki verið upplýst hvernig bílaleigan hyggst bæta viðskiptavinum tjónið. Þegar það liggur fyrir mun BL fyrst geta metið næstu skref með tilliti til hagsmuna viðskiptavina sinna.

Til upplýsingar

Bíleigendur sem keypt hafa notaðan bíl frá Procar hjá BL geta sent Draupni tölvupóst á netfangið dls@dls.is með upplýsingum um skráningarnúmer bílsins óski þeir eftir því að fá senda staðfestingu beint til sín. BL mun engu að síður hafa samband við alla viðkomandi aðila sem eiga umrædda bíla.