Brotist inn í bíla á höfuðborgarsvæðinu

Borið hefur á innbrotum í bíla víða á höfuðborgarsvæðinu á næturnar að undanförnu. Bílum í langflestum tilfella  hafi verið læst kvöldinu áður en það virðist ekki hafa stöðvað innbrotsþjófana við iðju sína. Þjófarnir ollu ekki miklum skemmdum en ljóst er að markmiðið eitt með þessum innbrotum sé að komast yfir verðmæti.

Það er grunur manna sem til þekkja á þessu sviði að þessir óprúttnu náungar sem hér eru á ferð virðast nýta sér í sumum tilfellum ákveðna tækni við innbrotin sem felst í því að merki frá lyklum bifreiða með lyklalausu aðgengi er notað til að opna þá. Fyrir tveimur árum síðan var töluvert um innbrot í bíla og var það hald manna að í nokkrum þeirra hafi innbrotsþjófarnir notað umrædda tækni til að komast inn í bílana.

Svo virðist sem þessir tæknivæddu þjófar noti merki, þó veik séu, frá bíllyklum sem séu inni í húsum til að komast inn í bíla.

Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eru ekki merki um aukningu í innbrotum í bíla upp á síðkastið. Þessi brot ganga í sveiflum en ekki er hægt merkja aukningu í þeim efnum á síðustu vikum . Það er nauðsynlegt að fólk hafi samband við lögreglu verði það vart við óeðlilegar mannaferðir og skilji alls ekki eftir verðmæti í bílum sínum.