Brú milli Danmerkur og Þýskalands

http://www.fib.is/myndir/Fehmarnbru.jpg

Nýja Fehmarnbrúin eins og hún er hugsuð.

Í gær undirrituðu samgönguráðherrar Dana og Þjóðverja samning um að byggja brú yfir Fehmarnsund frá Rödby á Lálandi í Danmörku yfir á þýsku eyjuna Fehmarn. Þar með er lokið 16 ára þreifingum og samningaviðræðum um málið og endanleg hönnun og bygging þessarar miklu samgöngubótar getur hafist. Áætlað er að brúin verði opnuð fyrir umferð bíla og járnbrautarlesta árið 2018.

Gert er ráð fyrir því að Danmörk verði sá aðili sem fjármagnar sjálfa brúna og verði eigandi hennar og rekstraraðili. Þjóðverjar skuldbinda sig til að leggja hraðbraut (2+2 veg) í stað 1+1 þjóðvegarins sem nú liggur frá bænum Heiligenhafen til ferjuhafnarinnar Puttgarden á norðurströnd Fehmarn-eyjar. Ennfremur heita Þjóðverjar því að endurbæta járnbrautina frá Puttgarden til Lübeck þannig að rafknúnar lestar geti farið þar um.

Vegurinn Rödby og Puttgarden eða E47 frá Kaupmannahöfn til Lübeck og Hamborgar er lang fjölfarnasta landflutninga- og ferðamannaleiðin milli Danmerkur og Þýskalands. Siglingatími ferjanna yfir Fehmarnsundið er tæpur klukkutími auk þess sem biðtími eftir plássi getur verið nokkur á mestu umferðartímunum. Brúin verður því augljóslega mikil samgöngubót. Carina Christensen samgönguráðherra Dana sagði við undirritunina að brúin ætti eftir að styrkja mjög tengslin milli Norðurlandanna og Þýskalands og við Evrópu í heild.