Búfénaður af þjóðvegunum

„Umráðamaður búfjár skal sjá til þess að búfé hans valdi ekki hættu á þjóðvegum landsins.“ Meðal annars þetta segir í athugasemdum FÍB við frumvarpi til heildarlaga um búfjárhald sem nú er til afgreiðslu hjá alþingi.

FÍB hefur gert athugasemdir við þær greinar þess sem lúta að lausagöngu búfjár á og við þjóðvegi landsins. Slík lausaganga skapar mikla hættu og hefur fjöldi slysa orðið þess vegna. FÍB leggur til að nýjar greinar verði settar inn í nýja lagabálkinn. Sú fyrri hljóðar svo:

„Umráðamanni búfjár er skylt að hafa nautgripi og hross í vörslu allt árið og sjá til þess að slíkt búfé gangi ekki laust á eða við þjóðvegi. Ákvæði þetta skal þó ekki hindra hagagöngu hrossa og nautgripa utan girðinga þar sem tryggt þykir að af því hljótist engin hætta fyrir umferð ökutækja, svo sem í heimalöndum eða afréttum sem liggja hvergi að alfaraleiðum.“

Í athugasemd segir að tíðni alvarlegra slysa og umferðaróhappa sem rekja má til lausagöngu stórgripa á og við þjóðvegi víða um land er með öllu óviðundandi og tímabært að tekið verði af skarið með vörsluskyldu stórgripa. Dæmin sýni að ekki er hægt að treysta því að alls staðar sé gripið til viðeigandi aðgerða af hálfu sveitarstjórna, þrátt fyrir hættuástand af völdum stórgripa.

Ennfremur leggur FÍB til að í þiðja kafla frumvarpsins komi nýtt ákvæði um ábyrgð eigenda búfjár:

„Umráðamaður búfjár skal sjá til þess að búfé hans valdi ekki hættu á þjóðvegum landsins. Umráðamanni er skylt að  kaupa vátryggingu hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi, til að bæta tjón sem búfé hans kann að valda, gangi það laust á þjóðvegum landsins.“

Í athugasemdum við þessa nýju grein segir: -Lausaganga búfjár á vegum er víðtækt vandamál hér á landi sem haft hefur í för með sér slys og slysahættu og ógnað öryggi vegfarenda. Aukin umferð, þ.á.m. umferð ferðamanna og aukinn umferðarhraði samfara betri vegum knýr á um að gripið verði til markvissra aðgerða til lausnar vandans.

Flest þessara umferðaróhappa verða við árekstur ökutækja og sauðfjár. Þá hefur hrossum fjölgað mikið á síðustu árum sem hefur leitt til aukinnar slysatíðni og alvarlegri slysa vegna árekstra ökutækja og hrossa. Alvarlegustu slysin virðast bundin við afmarkaða staði í þjóðvegakerfinu þar sem tíðni slysa sem tengist búfé er jafnramt hæst.

Umferðaróhöpp sem verða við árekstur ökutækja og búfjár hafa í för með sér miklar bótakröfur. Í flestum tilvikum leiða hlutlægar bótareglur umferðarlaga til þess að bifreiðaeigendur eru gerðir ábyrgir fyrir slíku tjóni. Þannig greiðast bætur úr ábyrgðartryggingum ökutækja vegna tjóns á búfé og missa þá eigendur ökutækjanna svokallaðan bónusrétt hjá vátryggingafélögum með tilheyrandi hækkun iðgjalda. Borið hefur á því að ökumenn fari af vettvangi eftir að hafa ekið á búfé án þess að gera vart við sig, til þess að forðast fyrrnefnt óhagræði. Í slíkum tilvikum bæta búfjártryggingar bænda tjón sem orðið hefur á búfé. Samkvæmt upplýsingum vátryggingafélaga er mikið um slíkar bótagreiðslur og hefur þeim farið fjölgandi á síðustu árum. Jafnframt hafa búfjáreigendur á seinni árum í sumum tilfellum verið dæmdir til að greiða tjón á ökutækjum þar sem lausaganga búfjár er bönnuð. Að mati FÍB er því afar brýnt að kveðið verði skýrt á um ábyrgð búfjáreiganda og vátryggingaskyldu hans í lögum að þessu leyti.