Bush og bensínið

The image “http://www.fib.is/myndir/Bush.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Miklar skemmdir urðu á olíuvinnslu- og hreinsunarstöðvum í fellibylnum Katrínu við Mexíkóflóann á dögunum. Það mun því taka langan tíma að koma olíuvinnslunni í samt lag á ný og í grein í Financial Times í morgun er fullyrt að Bush forseti og ríkisstjórn hans eigi eftir að bíta úr nálinni með það. Bensínskortur er yfirvofandi í Bandaríkjunum og afleiðingar þess verða yfirvöldum þungar í skauti. Þau eru sannarlega ekki öfundsverð af stöðunni.
Bandarísk stjórnvöld hafa lengi sætt ámæli Evrópskra ríkja fyrir að hafa enga orkustefnu, láta reka á reiðanum í orkumálum og ýta undir ómælda notkun gríðarlega eyðslufrekra bíla sem ekið er á hræódýru bensíni. En nú kann svo að fara að Bandaríkin verði að kyngja stolti sínu og leita á náðir Evrópumanna og þiggja neyðaraðstoð – bensín -  frá þeim. Ef það verður þá mun George W. Bush neyðast til að játa á sig ýmislegt af því sem borið hefur verið upp á hann í orkumálum og til að þurfa að endurgjalda Evrópumönnum greiðann  síðar í bæði pólitísku og efnahagslegu tilliti
Hátt settir embættismenn ríkja sem aðild eiga að Alþjóða orkumálastofnuninni hafa sagt við blaðamenn Financial Times að í raun sé aðeins verið að bíða eftir upplýsingum frá Bandarískum stjórnvöldum um hversu mikilli aðstoð þeir þurfa  á að halda og hvenær. Þegar þær upplýsingar berist verði neyðarhjálp veitt þegar í stað. Umtalsverðar varabirgðir af bensíni eru til í Evrópu til að grípa til í neyðartilvikum. Þær eru taldar nema um 168 milljónum tunna. Ríkisstjórnir sem aðild eiga að Alþjóða orkumálastofnuninni geta ráðstafað beint um 53 milljónum tunna af þessum birgðum en afgangurinn er á forræði Alþjóða orkumálastofnunarinnar.
Þýsk, spönsk, hollensk og frönsk stjórnvöld hafa verið gagnrýnin á utanríkisstefnu og utanríkisviðskiptastefnu Bush-stjórnarinnar. Þjóðverjar hafa þrátt fyrir það þegar lýst því yfir að þeir vilji aðstoða Bandaríkjamenn sem skiptir miklu máli því stærstur hluti neyðarbirgðanna er einmitt í Þýskalandi og sá hluti þeirra sem þýsk stjórnvöld hafa beint forræði yfir er tiltækur með einungis eins til tveggja daga fyrirvara. Financial Times segir að önnnur evrópsk og japönsk stjórnvöld muni heldur ekki halda að sér höndum að lána Bandaríkjamönnum bensín af umtalsverðum neyðarbirgðum sínu, en þau muni örugglega krefja þau bandarísku um pólitískan eða efnahgslegan greiða sem endurgjald síðarmeir.
Skemmdirnar sem fellibylurinn Katrín olli á olíustöðvum Bandaríkjamanna hafa leitt til þess að nú þegar hafa tapast 5 milljónir tunna af bensíni samkvæmt uplýsingum frá bandarískum stjórnvöldum í gær. Sumir sérfræðingar telja að skaðinn sé mun meiri en það og allt í allt vanti nú á bandarískan bensínmarkað yfir 50 milljónir tunna miðað við framleiðsluna eins og hún var áður en Katrín brast á og þegar er farið að bera á bensínskömmtun allvíða í Bandaríkjunum.
Sérfræðingar sem Financial Times ræddi við segja að ástandið sé nógu alvarlegt til að Alþjóða orkumálastofnunin geti gripið inn í þegar í stað samkvæmt neyðaráætlunum og miðlað neyðarbirgðum til Bandaríkjamanna og um leið krafist aðgerða eins og þeirra að lækka hámarkshraða um allt að 25% og takmarka notkun einkabíla.
En það er ekki bara Evrópa og Alþjóða orkumálastofnunin sem er tilbúinn að veita Bandaríkjmönnum hjálp í neyð, heldur líka OPEC ríkið og grannríkið Venezuela sem ekki á aðilda að orkumálastofnuninni. Venezuela á m.a. miklar birgðir á eyjunum Curaçao og Borco í Bahama eyjaklasanum, þaðan sem stutt er til Bandaríkjanna með bensínið. Á Curaçao  er sömuleiðis ein stærsta olíuhreinsunarstöð heims. En hversu vel Bush kann að hugnast það að þiggja aðstoð frá vistrimanninum Hugo Chavez forseta skal ósagt látið, en Chavez hefur verið óspar á að lýsa yfir andúð sinni á Bush.