BYD stærsti rafbílaframleiðandi heims

BYD framleiðir rafknúna fólksbíla af mörgu tagi sem eru mjög útbreiddir í heimalandinu, Kína.
BYD framleiðir rafknúna fólksbíla af mörgu tagi sem eru mjög útbreiddir í heimalandinu, Kína.

Nú á síðustu klukkustundum ársins er það orðið nokkuð ljóst að stærsti framleiðandi rafmagnsbíla í heiminum er ekki lengur Nissan, ekki er það heldur Mitsubishi, Renault né Tesla heldur BYD frá Kína. Endanlegar tölur liggja að vísu ekki fyrir en meginlínurnar eru skýrar.

Árið 2014 reyndist það vera Nissan sem framleiddi og seldi flesta rafbílana í heiminum og söluhæsta gerðin var Nissan Leaf sem verið hefur verið að styrkja umtalsvert stöðu sína á Íslandi undanfarna mánuði. Mitsubishi var í öðru sætinu árið 2014 og Tesla í því þriðja. BYD varð þá í sjöunda sætinu en á því ári sem brátt lýkur, hafa orðið mikil umskipti.

Sú stofnun sem heldur utan um bílaframleiðslu- og bílasölutölfræði heimsins heitir JATO og hafa verður í huga að hún skipar tengiltvinnbílum og rafbílum saman í einn flokk. En af bílum í þessum sameinaða flokki voru nýskráðir samtals 280 þúsund bílar í heiminum árið 2014 og hafði þeim þá fjölgað um 43 prósent miðað við árið á undan. Hvað nýskráningarnar verða margar á árinu 2015 á eftir að koma í ljós eftir áramótin, en ljóst er þó orðið að BYD er stærst í rafbílabransanum og afgreiddi frá sér til kaupenda 43 þúsund rafbíla á tímabilinu 1. janúar – 31. október í ár. En það eru fleiri stórir rafbílaframleiðendur í Kína en BYD. Meðal þeirra má nefna Kendi og Zotye sem báðir voru á lista þeirra tíu stærstu í fyrra. Í fyrra var mjög mjótt á munum milli Mitsubishi í öðru sætinu og Tesla í því þriðja. Einungis 300 bílar skildu í milli þeirra.

BYD rafmagnsfólksbílar eru lítt þekktir í okkar heimshluta en mjög þekktir og útbreiddir í heimalandinu, Kína. Strætisvagnar og rútubílar frá BYD, bæði raf- eða dísilknúnir eru hins vegar mjög þekktir og fyrirfinnast víða um heim, m.a. hér á Íslandi. Rafknúna strætisvagna frá BYD er að finna í hátt í 150 borgum í 40 löndum.