Cadillac í útrás

General Motors hefur ráðið nýjan markaðsstjóra fyrir Cadillac. Sá heitir Uwe Ellinghaus og var áður hjá markaðsdeild BMW. Ellinghaus hyggst fara í útrás með Cadillac merkið og ætlar sér tíu ár í það að gera Cadillac að heimsmerki.

Cadillac hefur lengstum verið lúxusmerki General Motors en aldrei náð að fanga athygli kaupenda lúxusvagna utan heimalandsins, Bandaríkjanna (nema kannski á Íslandi og í Kína í seinni tíð). Þessu vill nýi markaðsstjórinn breyta og ætlar sér tíu ár í það.

Árið 2009 þegar GM varð nánast gjaldþrota og neyddist til að leita á náðir bandaríska ríkisins um aðstoð, var reksturinn endurskipulagður, vörumerkjum var fækkað og mörg eldri undirmerkja GM, eins og Pontiac voru höggvin frá. Cadillac slapp við þau örlög og ákveðið var að skerpa frekar á gæða- og lúxusímynd merkisins og taka upp samkeppni við önnur lúxusbílamerki eins og Lexus, BMW og Mercedes. Hinn aldraði en síungi og djarfmælti  Bob Lutz var aðalmaðurinn í þróun nýrra GM bíla á þessum tíma og meðal nýjunga sem fram komu fyrir hans tilstilli voru t.d. Chevrolet Volt og Cadillac CTS. Lutz hikaði ekki við að segja að CTS bíllinn væri besti nýi bíll sinnar gerðar í heiminum og slægi við bílum eins og BMW M5, Mercedes AMG, Jaguar o.fl. Það varð til þess að bílavefurinn Jalopnik gekkst fyrir þolakstri nýrra bíla af þessu tagi og Bob Lutz tók þátt í honum sjálfur og viti menn: Cadillac CTS stóð sig best.

Ellinghaus segir við fréttamann Reuters að sér vaxi verkefnið ekki í augum. Fólk viti hvað Cadillac standi fyrir og því líki við Cadillac þótt því finnist aðrir bílar nærtækari þegar að bílakaupum kemur. Þessu sé hægt að breyta en það taki tíma. Í heimalandinu muni það taka tvö ár, fimm ár í Kína og áratug á öðrum markaðssvæðum þar sem Cadillac hefur lítt haft sig frammi.