Chevrolet burt úr Evrópu

Hlutdeild General Motors í evrópska bílamarkaðinum hefur verið rýr síðustu árin og helsta Evrópuvörumerki GM; Opel/Vauxhall hefur mjög skroppið saman frá því sem var á seinni helmingi síðustu aldar og verið rekið með tapi um margra ára skeið. En nú hyggst móðurfélagið breyta á róttækan hátt um stefnu. Allar fyrri hugmyndir um að leggja Opel niður hafa nú verið lagðar til hliðar. Nýja stefnan er sú að gera veg Opel sem mestan í Evrópu en hreinlega leggja niður Chevrolet vörumerkið. Engir nýir Chevroletbílar eiga að vera í boði í álfunni af hálfu GM eftir árið 2015, bara Opel (sem nefnist Vauxhall í Bretlandi).

Þessi nýja stefna stjórnar GM er alger kúvending frá þeirri sem tekin var upp árið 2005 að markaðssetja Chevrolet bíla í Evrópu. Reyndar hefur sú markaðssetning gengið þokkalega því að markaðshlutdeild Chevrolet er nú um 1,2 prósent. Ef allt væri sem sýnist ættu GM-menn að vera nokkuð ánægðir með það. En gallinn er bara sá að þessi árangur er fyrst og fremst á kostnað Opel, sem misst hefur markaðshlutdeild að sama skapi. GM hefur þannig verið í harðri samkeppni við sjálfan sig fyrst og fremst.

Það var stjórnarformaðu GM í Evrópu, Steve Girsky, sem greindi frá þessu á blaðamannafundi sem fór fram í gegn um síma í morgun. Hann sagði teikn væru um að kreppan í Evrópu hefði náð botninum og hægur bati væri hafinn í bílageiranum. Bæði kreppan og hörð innri samkeppni við önnur GM bílamerki hefði leikið Opel/Vauxhall grátt og myndi halda áfram að gera það og jafnvel Chevrolet líka, ef áfram yrði haldið á sömu braut. Eina vitið væri því að einblína á eitt vörumerki í Evrópu í stað tveggja.

Á síðasta ári seldust um 186 þúsund Chevroletbílar frá verksmiðju GM í S. Kóreu, í Evrópu. Eftir að Kóreuverksmiðjan komst í eigu GM, hétu bílarnir sem frá henni komu Daewoo. Bílarnir 186 þúsund eru um það bil 20 prósent af heildarframleiðslu verksmiðjunnar. Sumir þessara kóresku Chevrolet bíla eru nánast sömu bílar og Opel framleiðir. Dæmi um slíkan árekstur er jepplingurinn Chevrolet Trax frá Kóreu og Opel Mokka

„Við erum sannfærð um að þetta er leiðin til betra gengis allra vörumerkja okkar bæði í Evrópu og í veröldinni allri. GM mun hagnast á sterkara Opel vörumerki og við það að Chevrolet dregur sig út af Evrópumarkaðinum myndast meira svigrúm til sóknar í álfunni“ sagði Girski.  Aðspurður neitaði hann því að þessar fyrirætlanir tengdust á einhvern hátt samstarfi og hugsanlegum eignarhluta í PSA (Peugeot/Citroen).