Chevrolet í 100 ár

Chevrolet bíllinn er 100 ára í dag. Á þessum 100 árum hafa skipst á skin og skúrir og þótt allt sé í rífandi gangi þessa stundina er ekki langt síðan móðurfyrirtækið General Motors var á hausnum en bandarísk stjórnvöld skáru það niður úr snörunni. Síðan hefur leiðin legið bratt upp á við.

Í augnablikinu gengur allt vel og talið er að á 7,4 sekúndna fresti seljist Chevroletbíll einhversstaðar í heiminum. Á síðasta ári seldust á heimsvísu 4,3 milljónir Chevroletbíla og Chevrolet er lang söluhæsta merkið innan GM samsteypunnar. Vinsælastur er fjölskyldubíllinn Chevrolet Cruze en af honum seldust rúmlega milljón bílar á síðasta ári.

http://www.fib.is/myndir/Chevrolet-Classic-Six.jpg
Fyrsti Lettinn, Chevrolet Classic Six.
http://www.fib.is/myndir/Chevy55_BelAir.jpg
Chevrolet Bel Air 1955.

Hver var Chevrolet?

Chevrolet nafnið er frá stofnandanum komið en hann hét Louis Chevrolet. Hann var Svisslendingur, reiðhjólasmiður að iðn, sem fluttist til Bandaríkjanna árið 1900. Hann fékk þangað kominn mikinn áhuga fyrir hinu nýja samgöngutæki, bílnum þegar árið 1905 og gerðist þá fljótlega þátttakandi í kappakstri og varð um leið einn þeirra bestu í því. Árið 1909 var hann orðinn fastur  liðsmaður í kappakstursliði Buick en eins og svo margir kappaksturskappar vann hann samhliða að smíði og þróun eigin bíla. Árið 1911 stofnaði hann svo fyrirtækið  Chevrolet Motor Car Company í Detroit og kynnti strax árið eftir fyrsta Lettann; Classic Six.

Fyrstu ár fyrirtækisins háði það harða samkeppni við Ford um hylli bílakaupenda og gekk reyndar ágætlega. En hugur hans stóð fremur til þátttöku í bílasportinu og þróunarvinnu, m.a. við flugvélamótora, en viðskiptanna. Endirinn varð sá að hann seldi fyrirtækið General Motors.

En svo kom verðbréfahrunið á Wall Street árið 1929 sem varð að heimskreppu áður en við væri litið. Í henni tapaði Louis Chevrolet öllum eigum sínum og næstu árin vann hann fyrir sér m.a. sem óbreyttur verkamaður við færiböndin í bílaverksmiðjunum í Detroit. Það stóð þó ekki lengi því að heimurinn tók bílnum svo fagnandi að bílasala fór ört vaxandi í hinum vestræna heimi. Kreppan náði því ekki að draga máttinn úr bílaiðnaðinum. Louis Chevrolet hafði sem þekktur kappakstursmaður haft góð tengsl víða við ýmist frægðarfólk eins og leikara, stjórnmálamenn sem aftur þreyttist ekki á því að auglýsa bílana fyrir hann og fyrir GM eftir að samsteypan hafði eignast vörumerkið. Chevrolet stækkaði því ört og nýjar verksmiðjur voru byggðar, ekki bara í Bandaríkjunum heldur um víða veröld til að anna stöðugt vaxandi eftirspurn eftir bílum.

Fyrsta Chevrolet verksmiðjan í Evrópu var reist í Kaupmannahöfn og í henni voru settir saman bílar fyrir Norðurlöndin, Eystrasaltslönd, Ungverjaland, Austurríki, Þýskaland og Rússland. Sjálfir bílarnir voru þeir sömu og framleiddir voru heima í Detroit og víðar í Bandaríkjunum

 Olíukreppur

Eins og hinir stóru bandarísku bílaframleiðendurnir (Ford og Chrysler) fór Chevrolet illa út úr fyrstu olíukreppunni sem hófst árið 1973. Evrópubúar urðu miklu fljótari til að mæta kreppunni og ört hækkandi eldsneytisverði og það gerðu þeir með því að hætta einfaldlega að kaupa stóra, þunga og eyðslufreka bíla. Markaðshlutdeild Chevrolet í álfunni sem hafði verið allbærileg, hreinlega hrundi og vörumerkið hvarf mjög víða. Hinir bandarísku stjórnendur bílaiðnaðarins í Detroit  voru furðu lengi að átta sig á þessu og það var í raun ekki fyrr en árið 2005 þegar General Motors var í raun komið á hausinn sem róttæk stefnubreyting átti sér stað hjá GM og farið var í að framleiða í stórum stíl litla og meðalstóra sparneytna og örugga bíla sem almenningur í Evrópu og jafnvel í Bandaríkjunum sjálfum hafði lengi kallað eftir og fengið frá Japan. Og það var eins og við manninn mælt, salan margfaldaðist á örfáum árum og nú er Chevrolet það bílamerki sem hraðast vex og eflist í Evrópu. Það voru ekki síst kaup GM á kóreska merkinu Daewoo sem gerðu GM mögulegt að byggja litla ódýra bíla í stórum stíl

En mitt í þessari stefnubreytingu og basli tókst GM/Chevrolet að skapa sér sess sem framsækinn bílaframleiðandi og opinn fyrir að prófa eitthvað nýtt. Það gerðist með rafmagnsbílnum Chevrolet Volt sem byrjað var að selja á almennum markaði í upphafi þessa árs. Volt er fyrsti rafbíllinn sem er með rafstöð um borð sem framlengir drægi hans þannig að það er fyllilega á við hvaða sambærilegan fólksbíl sem er. Með Chevrolet Volt hefur Chevrolet tekist að koma fram með tímamótabíl sem markar stefnuna til næstu aldar í lífi þessa gamalgróna merkis.