Chevrolet Malibu

Chevrolet Malibu var upp úr miðri 20. öldinni draumabíll margs ungs sveinsins sem nú nálgast áttræðisaldurinn. Eftir langt hlé fæst Malibu nú aftur á Íslandi og meira að segja með dísilvél sem þótt hefði mikið stílbrot á sjöunda áratuginum. En tímarnir breytast og nútíma Chevy Malibu er harla ólíkur gömlu drekunum með sama nafni.

Í gamla daga var það SÍS sem flutti inn Chevrolet en nú er það Bílabúð Benna. Þar fæst Malibu nú með 2,0 lítra sparneytinni dísilvél sem afkastar 160 hestöflum og hefur 350 Nm hámarkstog. Bíllinn er boðinn sjálfskiptur og hlaðinn staðalbúnaði.  

Malibu er stór, fimm mann fólksbíll, 4,86 metrar á lengd. Farangursrýmið er stórt og rúmar, með sæti í uppréttri stöðu, 545 lítra. Útlitshönnun Malibu byggir að hluta til á hinum goðsagnakennda Chevrolet Camaro og að hluta til á Opel. Hann er rúmgóður og yfirbyggingin einkennist af kraftalegum formlínum.

Í staðalgerð kemur hann hlaðinn búnaði. Þar má nefna hluti eins og lyklalaust aðgengi og ræsihnapp, leðurklædd sæti, rafknúna topplúgu, rafknúin sæti með minni, bakkskynjara, Xenon aðalljós, 18" álfelgur, hita í framsætum, regnskynjara og margt fleira. Stýrishjólið er þriggja rima leðurstýri með aðdrætti og veltu, stjórnrofum fyrir upplýsinga- og afþreyingarkerfi og sérstaklega formuðu stýri sem stuðlar að nákvæmari stýringu. Malibu státar einnig af bestu hljóðeinangruninni í stærðarflokknum. Upplýsinga- afþreyingarkerfi bílsins fylgir 7" snertiskjár í lit, níu hátalarar, Bluetooth tenging ásamt tengingum fyrir Aux, SD og USB. Sportlega formuð leðursætin eru þægileg fyrir líkamann.

Chevrolet Malibu kostar 5.490.000 kr. í bensínútfærslu. Dísilgerð bílsins er kynnt þessa dagana hjá Bílabúð Benna og kostar 5.990.000 kr.