Chevrolet Volt er bíll ársins í USA

Detroit bílasýningin, uppskeruhátíð bandaríska bílaiðnaðarins var opnuð í gær fyrir blaðamenn og fjölmiðlamenn. Við það tækifæri var tilkynnt hvaða bíl n. amerískir bílablaðamenn hefðu útnefnt bíl ársins og reyndist það vera rafbíllinn Chevrolet Volt, sem einmitt þessa dagana er að koma í hendur fyrstu kaupendanna.

Bandarískir og kanadískir bílablaðamenn velja ekki bara einn bíl sem bíl ársins  í MNorður-Ameríku heldur velja þeir tvenns konar bíla ársins hverju sinni - annarsvegar bíl ársins (North American Car of the Year) og hins vegar Truck of the Year eða pallbíl/jeppa ársins. Sá bíll sem þann titil vann að þessu sinni er Ford Explorer jeppinn nýi. 

Chevrolet Volt sigraði afgerandi í fólksbílaflokknum og hlaut 233 stig af 490 mögulegum. Hyundai Sonata varð í öðru sæti með 163 stig og Nissan Leaf í því þriðja með 94 stig.

 Það eru því rafbílar sem valdir hafa verið bílar ársins bæði vestan og austan Atlantshafs. Nissan Leaf, sem er hreinn rafbíll (engin rafstöð um borð), er bíll ársins í Evrópu, en Volt, sem líka er rafbíll, en með bensínrafstöð um borð sem fer í gang þegar strauminn á geymunum þrýtur.

 Sigurinn í keppninni um titilinn bíll ársins í N. Ameríku er mjög sætur fyrir General Motors því að bíllinn er einmitt að koma á markað um þessar mundir og titillinn ýtir vissulega undir áhuga almennings fyrir honum. En ekki bara það, heldur hafa helstu bíla- og tæknitímarit og fjölmiðlar líka valið Chevrolet Volt sem athyglisverðustu tækninýjungina í bílamálum á nýbyrjuðu ári. Dan Akerson forstjóri GM sagði við útnefninguna í Detroit í gær að titilinn væri sérlega mikilsverður fyrir bílinn sem væri tæknileg nýjung í sjálfu sér. –Titillinn mun hjálpa til við að sannfæra bílakupendur um að Volt er raunverulegt brautryðjandaverk. Hann hefur alla kosti rafbílsins og þær efasemdir um drægi rafbíla sem fólk hefur, eru fullkomlega ástæðulausar þegar Volt á í hlut.

 Meðal þeirra bandarísku tímarita sem útnefnt hafa Chevrolet Volt sem bíl ársins eru Motor Trend, Green Car Journal, Car and Driver, Ward's AutoWorld, AUTOMOBILE Magazine og Popular Mechanics.