Chrysler innkallar 250,000 bíla í USA

Chrysler Group, einn hinna þriggja stóru í Detroit í Bandaríkjunum og sem nú er rekinn af Fiat, hefur innkallað 248,437 eintök af Dodge Caravan, Dodge Grand Caravan og Chrysler Town & Country bílum af árgerð 2010. Ástæðan er sú að bílar af þessum gerðum hafa stöðvast fyrirvaralaust úti á vegum vegna þess að það drapst á vélinni.

Bílarnir sem um ræðir voru byggðir á tímabilinu ágúst 2009 til júní 2010. Ástæðan fyrir því að þeir eiga til að drepa á sér eru sú að kveikilásinn með lyklinum í (svissinn) getur átt það til að snúast í akstri vegna titrings og það svo mjög að það drepst á vélinni. Þeir kveikilásar sem um er að ræða voru framleiddir af Continental í Mexíkó.

Í frétt frá Chrysler segir að innköllunin tengist tveimur slysum sem urðu þegar skyndilega drapst á bílum. Ennfremur hafi 32 eigendur þessara tilteknu bíla kvartað undan þessu og 465 ábyrgðarviðgerðir hafi verið framkvæmdar af þessu tilefni. Í tilkynningu Chryslers til bandarísku umferðaröryggisstofnunarinnar NHTSA segir að lélegu kveikilásarnir séu í um það bil þremur prósentum bílanna sem innköllunin nær til. Langflestir bílanna eru í Bandaríkjunum. Innköllunin nú er sú 28. hjá Chrysler síðan 2009. Chrysler Group innkallaði 589,000 bíla í 15 lotum árið 2009, og 1,5 milljón bíla í 13 lotum árið 2010.