Chrysler réttu megin við núllið

Nú þegar bókhaldið hjá Chrysler fyrir nýliðið ár liggur fyrir, má forstjórinn, Sergio Marchionne bara vel við una. Erfið ár og efnahagskreppa virðist að baki, reksturinn er réttu megin við núllið og gamla bíóhetjan Clint Eastwood orðinn auglýsingarödd Chryslers á heimamarkaðinum í USA og á fimmtudaginn var fengu starfsmenn Chryslers í USA sérstakan bónus fyrir vel unnin störf.

http://www.fib.is/myndir/DodgeDart.jpg
Dodge Dart árgerð 2012-´13.

Chrysler, sem flestir töldu vera við dauðans dyr á kreppuárunum 2008-2009 hefur hjarnað vel við. Þegar Sergio Marchionne tók við stjórninni og hóf endurskipulagningu Chryslers árið 2009 var hann ekkert að skafa utanaf hlutunum. Hann sagði þá við starfsmennina að úrslitastundin væri komin. – Þetta er síðasta tækifærið sem þið fáið til að bjarga Chrysler. Þau verða ekki fleiri.-  En björgunaraðgerðirnar tókust óneitanlega og samvinnan við Fiat hefur skilað bandarískum bílakaupendum fjölbreyttari og eyðslugrennri bílum, eins og hinum nýja Dodge Dart sem virðist ætla að gera sig ágætlega. Allavega var tilkynnt í sl. viku að ráða þyrfti 1.800 nýja starfsmenn til að manna nýja framleiðsluvakt fyrir Dodge Dart í Belvedere Assembly Plant verksmiðjuna í Illinois til að anna eftirspurninni.

Mörgum markaðsmanninum þótti það ansi djarft af Marchionne að ætla að sameina Fiat og Chrysler. En sameiningin hefur skilað sér vel, sérstaklega á þann hátt að orðspor bæði Fiat og sérstaklega þó Chrysler bílar hefur batnað og þeir nú taldir betri og öruggari í rekstri en áður. Hinn nýi Dodge Dart er millistærðarbíll á bandaríska vísu og fyrsti nýi bíllinn hjá Chrysler um langt skeið. Hann er beint afsprengi samvinnu milli Fiat á Ítalíu og Chrysler í Bandaríkjunum.