Claes Tingvall á umferðarþingi 2010

Umferðarþing verður haldið á Grand Hótel Reykjavík, fimmtudaginn 25. nóvember næstkomandi. Gestur þingsins að þessu sinni er sænski læknaprófessorinn Claes Tingvall. Hann er heimsþekktur fyrir störf sín að slysavörnum og var lengi stjórnarformaður EuroNCAP stofnunarinnar sem árekstursprófar nýja bíla og gefur þeim stjörnur eftir því hversu öruggir þeir reynast. Claes Tingvall er frumkvöðull að núllsýn í umferðarslysamálum sem miðar að því að koma í veg fyrir dauðaslys í umferðinni, svipað og gert hefur verið um langt skeið í fluginu með góðum árangri.

Umferðarþing er haldið  annað hvert ár. Að þessu sinni snýst það um núllsýnina sem FÍB hefur takið upp á sína arma hér á landi. Hún er í stuttu máli sú að dauðaslys og alvarleg slys í umferðinni eru óásættanleg og þessvegna ber að gera allt sem mögulegt er til að koma í veg fyrir þau. Og það er sannarlega margt sem hægt er að gera til að fækka slysunum og draga úr alvarlegum afleiðingum þeirra.

Claes Tingvall er sá maður sem mest og best hefur bent á það síðustu árin að banaslys eru síður en svo óumflýjanlegur fylgifiskur nútíma umferðar. Það er hægt að gera bílana betur úr garði þannig að þeir verji þá sem í þeim eru (EuroNCAP), það er hægt að gera vegina betur úr garði (EuroRAP/EuroTAP) þannig að dagleg og algeng mistök ökumanna og annarra í umferðinni leiði ekki til þeirra stórkostlegu harmleikja, dauða, örkumla og eyðileggingar sem svo oft hafa gerst og enn gerast. Það er ekki nóg að beina allri athygli að ökumönnum einum eins og lengstum hefur verið gert, heldur líka að bílnum, umferðarmannvirkjunum, umferðarflæðinu, umhverfinu og öðrum vegfarendum. Það er mikill fengur að fá Claes Tingvall á umferðarþing til að hlýða á mál hans og ræða við hann og full ástæða til að hvetja alla sem láta sig þessi mál einhverju skipta, að mæta á þingið. Hægt er að skrá sig hér á umferðarþingið 2010.

Hér á landi eru margir sem aðhyllast vel ígrundaðar og rökstuddar hugmyndir núllsýnarinnar en í henni er skilgreint ítarlega hvað þurfi til að koma í veg fyrir dauðsföll í umferðinni jafnvel þótt vegfarendur lendi í óhappi. Núllsýnin snýst í raun um breyttar áherslur stjórnvalda og annarra þeirra sem leggja línurnar varðandi umferðaröryggi. Umferðaröryggi ræðst af þremur þáttum, það eru gæði vegfarenda, umferðarmannvirkja og ökutækja en flestir ef ekki allir þessi þættir mótast mjög af stefnu og kröfu stjórnvalda hverju sinni. Núllsýnin er talin vel framkvæmanleg og þótt hún kosti töluverða vinnu og fjármagn á fyrstu stigum verkefnisins þá skilar það fjármagn sér fljótt í þeirri arðsemi sem hlýst af  björgun mannslífa. Hafa skal í huga að umferðaróhöpp og slys kosta íslenskt samfélag tugi milljarða á hverju ári. Núllsýnin gengur út á það að t.d. við hönnun umferðarmannvirkja sé miðað við að ekkert slys verði í stað þess að miðað sé við einhverjan skilgreindan „ásættanlegan" fjölda slysa líkt og fjöldi dæma er um.

Sá árangur sem náðst hefur hér á landi í öryggi sjómanna og í flugi sýnir að það er hægt að gera róttækar breytingar í þessum efnum. Gæði vega, vegfarenda og ökutækja þurfa að vera, eins og áður er sagt, það mikil að vegfarandanum sé þyrmt og hann komist lífs af þótt hann geri mistök. Samkvæmt núllsýninni er þetta hægt.

Claes hefur skrifað yfir 100 tækni- og læknisfræðilegar greinar í bækur og tímarit og haldið fyrirlestra um umferðaröryggismál víða um heim. Núna er hann yfirmaður umferðaröryggisdeildar hjá Trafikverket í Svíþjóð. Hann var um sex ára skeið stjórnarformaður í EuroNCAP, sem annast mat á öryggi bíla og hefur haft mikil áhrif til að framleiðendur miði hönnun bíla við að vera eins örugga og kostur er. Hann er einnig prófessor við Monarch háskólann  í Ástralíu.