Dælan in memorian

Dælan kom fram á sjónarsviðið í júní 2016, þegar N1 stofnaði nýtt vörumerki fyrir þrjár af sjálfsafgreiðslu eldsneytisstöðvum sínum á höfuðborgarsvæðinu. Þessar stöðvar seldu eldsneyti sem keppti við verðlagningu þáverandi Orkan X stöðva. Orkan X var undirmerki Orkunnar sem er vörumerki í eigu Skeljungs. Orkan X stöðvarnar voru afsláttarlausar og buðu oftast lægsta eldsneytisverðið á markaðnum jafnvel þó tekið væri tillit til afslátta annarra stöðva.

Costco opnaði bensínstöð í Kauptúni þann 17. maí 2017 samhliða opnun verslunar sinnar. Innkoma Costco hafði djúp áhrif á eldsneytissölu á höfuðborgarsvæðinu og víðar, en Costco hefur frá opnun boðið lægsta bensín- og dísilverðið á landinu. Costco fékk samkeppnislaust að sjúga upp eldsneytissölu á höfuðborgarsvæðinu í krafti þónokkuð lægra eldsneytisverðs allt þar til Atlantsolía ákvað 1. maí 2018 að fara í verðsamkeppni við Costco á stöð sinni í Kaplakrika. Leiða má líkur að því að Atlantsolía hafi tapað hlutfallslega stærstu markaðshlutdeildinni við innkomu Costco á eldsneytismarkaðinn. Rúmu ári síðar eða 3. júní 2019 lækkaði Atlantsolía verðin á stöð sínni við Sprengisand í stíl við Kaplakrika. Þá tóku hin olíufélögin við sér og breyttu nokkrum stöðvum á höfuðborgarsvæðinu í grennd við Kauptún í afsláttarlausar "Costco-samkeppnisstöðvar".

Í upphafi árs 2019 var N1 gert að selja Dælan stöðvarnar ásamt tveimur sjálfsafgreiðslustöðvum að auki, fimm stöðvar í heildina, til að fá samþykki Samkeppniseftirlitsins fyrir fyrirtækjasamrunanum við Festi verslunarkeðjuna. Fyrrverandi forstjóri Skeljungs, sem var á sínum tíma viðriðinn Skeljungsmálið svokallaðakeypti Dælan vörumerkið og stöðvarnar fimm af N1 í gegnum eignarhaldsfélag sitt Eini. Atlantsolía hafði einnig óskað eftir að gera tilboð í stöðvarnar en var hafnað á grundvelli skilmála Samkeppniseftirlitsins fyrir sölunni, kaupandinn þyrfti að vera "nýr aðili" á eldsneytismarkaði. Atlantsolía fékk þó að kaupa fimm eldsneytisstöðvar af Olís vegna samrunaskilyrða Samkeppniseftirlitsins þegar Olís og Hagar sameinuðust í eitt fyrirtæki.

Alþingi samþykkti að leggja niður flutningsjöfnunarsjóð olíuvara þann 2020-06-29 og tók sú ákvörðun gildi um áramótin 2021-01-01. Í stað flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara voru sett inn ákvæði um olíuvörur í lög um svæðisbundna flutningsjöfnun, einhverskonar flutningsjöfnunarstyrkir fyrir olíuvörur tóku semsagt við af hinum sáluga flutningsjöfnunarsjóði olíuvara sem var frá 1994 til loka 2020. Á sínum tíma hafði ég velt fyrir mér hvort þetta jöfnunargjald væri ein ástæða lágs verðs Costco en skilst mér nú að bæði Costco og Dælan hafi þurft að standa straum af því gjaldi eins og hin félögin. Velti ég því nú fyrir mér hvaða afleiðingar hafi orðið vegna þessara lagabreytinga, ef einhverjar. En það liggur í það minnsta fyrir að munur hæsta og lægsta eldsneytisverðs hefur aukist töluvert.

Eldsneytisverð

Gögn frá janúar 2016 til nóvember 2021 um mun á hæsta og lægsta eldsneytisverði unnin úr git sögu Gasvaktarinnar. 

Þann 22. september 2020 hóf Atlantsolía að bjóða Costco-samkeppnisverð á einni eldsneytisstöð sinni á Akureyri og sama dag svöruðu hin þrjú olíufélögin á Akureyri með því að lækka verð á völdum stöðvum sínum á Akureyri. Segja má að Costco hafi rutt brautina fyrir lækkun eldsneytisverðs til íslenskra neytenda og Atlantsolía hafi tryggt frekari útbreiðslu ódýrari stöðva sem aftur vakti svo gömlu olíufélögin af værum blundi.

Skeljungur gekk frá kaupum á öllum hlutum í Port I í nóvember 2020 með fyrirvara um samþykkt Samkeppniseftirlitsins en Port I var þá eignarhaldsfélag Dælunnar ehf og Löðurs ehf. Eftir rannsókn á samrunanum varð það mat Samkeppniseftirlitsins að ekki væri tilefni til íhlutunar vegna samrunans þar sem ekki væru vísbendingar um að markaðsráðandi staða væri að myndast eða að samruninn leiddi að öðru leyti til umtalsverðrar röskunar á samkeppni.

Í lok 2021-09 hóf Skeljungur að færa stöðvar Dælunnar undir merki Orkunnar, fyrstar voru stöðvarnar í Fellsmúla og við Salaveg, síðan stöðin í Vatnagörðum, svo stöðin í grennd við Mjódd, og loks aðra vikuna núna í nóvember var stöðin í Hæðarsmára færð undir merki Orkunnar.

Þar með er sögu Dælunnar væntanlega lokið, allavega í bili. Dælan var á sínum tíma stofnuð til að auka samkeppni við Orkuna eða Orkuna X en er núna í eigu Skeljungs móðurfélags Orkunnar. Það gerast einkennilegir hlutir í íslensku viðskiptalífi og íslenski olíumarkaðurinn er þar ekki undantekning.

 

Sveinn Flóki Guðmundsson

Höfundur er skapari og viðhaldari Gasvaktarinnar.