Dagljósaskyldan gleymdist

Renault Twizy, tveggja manna rafknúna borgarbílnum seinkar um eitt ár í Danmörku. Twizy átti að vera að koma á markað þar þessa dagana en tefst um eitt ár og kemur ekki fyrr en næsta vor. Ástæðan er sú að hjá rafbíladeild Renault gleymdist að gera ráð fyrir dagljósum á farartækinu, en dagljós eru lagaskylda í Danmörku eins og hér á landi og víðar. Öll vélknúin farartæki og rafknúin meðtalin skulu nefnilega vera með dagljósabúnað.

Málið er hálf vandræðalegt því að áhugi var nokkur fyrir Renault Twizy bæði meðal einstaklinga og hjá fyrirtækjum sem hugðust leigja bílana út. Danir grínast nú með það að þeir sem áttu að sjá um að gera farartækin lögleg á einstökum svæðum, hafi ekki verið í stuði þegar á þurfti að halda.

Venjulegir nýir bílar eru oftast gerðir þannig úr garði að lági geislinn í aðalljósunum kviknar þegar bíllinn er gangsettur og slokknar ekki fyrr en drepið er á honum aftur. Það gengur ekki með Renault Twizy vegna þess að í honum er einungis ein rafhlaða sem veitir straumi til rafmótorsins og alls annars búnaðar í bílnum sem gengur fyrir rafmagni. Ef lági geislinn er alltaf kveiktur þá gengur hann allt of freklega á strauminn í geyminum og rýrir drægi bílsins.

Hjá Renault eru menn því sestir að teikniborðinu á ný til að finna lausn þessa vanda sem dugar. Hvort hún verður fólgin í orkusparandi LED-ljósum og / eða sérstökum rafgeymi fyrir ljósin er ekki orðið ljóst á þessari stundu.