Daimler boðar frumgerð langdrægs raf-Benz í haust

Á blaðamannafundi í Stuttgart sl. föstudag boðaði Thomas Weber yfirmaður þróunardeildar og stjórnarmaður Daimler (Benz – Smart) frumgerð að nýjum langdrægum Benz rafbíl sem sýnd verður á bílasýningunni í París í október nk. Þessi bíll er hugsaður til höfuðs hinum nýja Tesla Model X og á að komast 500 km á rafhleðslunni.

„Hönnunarvinnunni er lokið, vinnuhópar eru á fullu, reynsluakstur er hafinn og fyrstu niðurstöður streyma inn,“ sagði Weber.  Hann vildi ekki tilgreina hvenær almenn sala á þessum bíl hæfist en sagði að það yrði vel fyrir lok áratugarins.

Daimler líkt og aðrir evrópskir bílaframleiðendur eru um þessar mundir að auka verulega framlög sín til rannsókna og tilrauna með rafmagnsökutæki til að geta mætt hertum mengunarkröfum í álfunni og líka til að saxa á forskot bandaríska rafbíla- og rafgeymaframleiðandann Tesla. Þá hafa þýsk stjórnvöld boðað sérstakar ívilnanir til þeirra sem kaupa lágmengandi bíla eins og rafbíla og tengiltvinnbíla.

En allt er þetta auk þess til vitnis um það að bílar eru að breytast hratt um þessar mundir í tæknilegu tilliti og að lágmengandi rafbílum, tengiltvinnbílum og jafnvel vetnisrafbílum mun mjög fjölga hlutfallslega á allra næstu árum.  Daimler áætlar að selja árlega minnst 100 þúsund rafbíla fyrir lok þessa áratugar að sögn Webers.