Dakar rallið í S. Ameríku

http://www.fib.is/myndir/Dakar09-skodun.jpg

Skoðun ökutækja fór fram í gær, nýársdag.

Mörg undanfarin ár höfum við sagt undan og ofan af Dakar rallinu hér á vef FÍB. Engin umfjöllun var þó um það á síðasta ári sem kom ekki til af góðu – rallið var þá fellt niður. Það gerðist í kjölfar þess að fjórir franskir ferðamenn og þrír hermenn Máritaníuhers voru myrtir af hryðjuverkamönnum rétt áður en keppnin átti að hefjast. Vegna þessara atburða gáfu frönsk stjórnvöld út viðvörun um að Al Kaída hygði á frekari hermdarverk í garð keppenda, starfsfólks, áhorfenda  og fjölmiðlafólks. Í kjölfarið var keppninni aflýst.

En nú er Dakar rall aftur að hefjast. Að þessu sinni er það alls ótengt Afríku og hvað þá borginni Dakar í Senegal, heldur hefur keppnin verið flutt til Suður Ameríku og hefst á morgun í borginni Buenos Aires í Argentínu þar sem það mun enda einnig. Í gær, nýjársdag, fór fram tæknileg skoðun ökutækjanna sem skráð hafa verið til keppni. Um 530 ökutæki fengu viðurkenningu og hefja keppni á morgun. http://www.fib.is/myndir/Dakar09.jpg

Keppnisvegalengdin í heild er um 9.500 kílómetrar og að vanda ægir saman í þessari miklu keppni farartækjum af ólíkum toga – þarna keppa mótorhjól, fjórhjól, bílar og trukkar. Keppnisleiðirnar eru mis erfiðar yfirferðar allt frá hraðbrautum í upphafi keppni til vegleysa um eyðimerkur og yfir Andesfjallgarðinn mikla í tvígang uns keppni lýkur í Buenos Aires. Keppnisáfangar og þar með sérleiðir eru alls 14.

Mitubishi liðið hefur verið mjög sigursælt undanfarin mörg ár og ætlar sér hvergi að gefa eftir. Helsti ökumaður liðsins er Frakkinn Stephane Peterhansel en hann hóf Dakar-kepnisferil sinn á mótorhjólum og sigraði sex sinnum sem slíkur. Eftir að hafa flutt sig yfir á Pajero Evolution bíla Mitsubishi hefur hann sigrað þrisvar; fyrst árið 2004, þá 2005 og loks 2007. Að þessu sinni keppir Peterhansel á nýjum Mitsubishi Lancer dísilbíl.

Volkswagen ætlar sér líka stóra hluti. Helsti ökumaður VW er Spánverjinn Carlos Sainz sem ekur VW Touareg keppnisbíl með dísilvél. Sainz er afbragðs ökumaður og mun veita Peterhansel harða keppni svo framarlega sem bíll og búnaður duga honum. Peterhansel, sem nú keppir á nýjum bíl sem í ofanálag er með dísilvél, býst greinilega við harðri keppni. Hann hefur sagt í viðtölum við fjölmiðla að búið sé að þróa og þrautprófa nýja Lancerinn en óneitanlega hafi Volkswagen meiri þekkingu í gerð dísilvéla en Mitsubishi, en þeir hjá Mitsubishi þekki hins vegar Dakar rallið betur en Volkswagenmenn.