Danir aka hægar og hægar

Danskir ökumenn hafa undanfarinn tæpan áratug stöðugt verið að hægja á akstri sínum. Í júlímánuði sl. var meðalhraði bíla á  vegum landsins sá lægsti í níu ár samkvæmt hraðamælingum dönsku Vegagerðarinnar. Ástæða þessa er óþekkt,

Á þessum níu árum sem liðin eru frá því að danskir bílstjórar byrjuðu að draga úr hraða hafa engin sérstök stórátök eða herferðir gegn hröðum akstri verið í gangi. Hraðamyndavélum hefur ekkert verið fjölgað og sektir og viðurlög við hraðakstri ekkert verið hert. Danska Vegagerðin mælir kerfisbundið hraða bíla á vegum landsins og hraðinn hefur semsé stöðugt farið lækkandi og hlutfallslega mest á hraðbrautunum. Þrátt fyrir að hámarkshraði á bestu hraðbrautunum hafi verið hækkaður fyrir ekki svo löngu, hefur umferðarhraðinn samt haldið áfram að lækka.

Þetta vekur nokkra furðu og uppi eru ýmsar getgátur um hvað gæti valdið, en ekkert er vitað með vissu. Hraðamælingatölur sl. júlímánaðar eru merkjanlega lægri en í júlí í fyrra á öllum vegum. Á hraðbrautunum umhverfis Kaupmannahöfn þar sem leyfður hámarkshraði er víðast hvar 110, var meðalhraðinn nú 109,2 km/klst. eða 2 km lægri en í júlí í fyrra. Á hraðbrautum þar sem leyfður hámarkshraði er 130 km á klst. reyndist mældur meðalharði vera einungis 122,5.

Svipaða sögu er að segja af annarskonar vegum, bæði 2+1 og 1+1 vegum. Hraðinn mælist alls staðar lægri í nýlega liðnum júlí en í júlí í fyrra. Á öllum gerðum danskra þjóðvega hefur meðalhraði umferðarinnar aldrei verið lægri síðan árið 2002. Hugsanlegt er að mismuninn milli júlímánaðanna í fyrra og á þessu ári sé eitthvað hægt að rekja til þess að óvenju miklar rigningar voru í Danmörku í sl. júlímánuð.  Það er þó varla nema hluti skýringarinnar, vegna þess að meðalhraði umferðarinnar á vegunum hefur jafnt og þétt verið að lækka allt frá árinu 2002. Meginástæðan er því enn óþekkt.

Frá þessu er greint í nýju tölublaði Motor, félagsriti FDM, systurfélags FÍB í Danmörku.. Enginn þeirra sérfræðinga sem rætt er við getur gefið vísindalega skýringu á hvað veldur þessu. Formaður dönsku umferðarslysarannsóknanefndarinnar fagnar hins vegar og segir að minnkandi umferðarhraða sjái greinilega stað í færri umferðarslysum, en umferðarslys hafa aldrei verið færri í Danmörku frá lokum síðari heimsstyrjaldar en nú. Formaðurinn telur að nokkrar ástæður geti valdið þessu: Ein sé hugsanlega efnahagsástandið hjá almenningi. Þá geti verið að fræðsla og áróður sé tekinn að ná betur til fólks. Einnig séu GPS leiðsögutæki orðin mjög algeng og þau sýni flest ökumönnum leyfðan hámarkshraða á þeim vegum sem ekið er eftir hverju sinni. Ennfremur séu margir nýir bílar búnir hraðatakmarkara og/eða skriðstilli og ökumenn stilli skriðstillinn gjarnan á ýmist leyfðan hámarkshraða eða þann hraða sem best hentar bílnum til að hann eyði sem minnstu eldsneyti.