Danir gerðu eins og við

Nefnd danskra bílablaðamanna sem velur bíl ársins í Danmörku hefur valið sama bíl og valnefnd íslenskra bílablaðamanna valdi á dögunum sem bíl ársins 2014 á Íslandi – Skoda Octavia.

Eins og hjá íslensku blaðamönnunum varð mjótt á munum milli bílanna sem úrslitavalið stóð um. Það var ekki fyrr en síðasti nefndarmaður af 24 skilaði inn sinni niðurstöðu að ljóst varð að það var Skódinn sem hafði orðið efstur með 144 stig.

Mazda 3 reyndist verða í öðru sæti  með 130 stig og Peugeot 308 í því þriðja með aðeins einu stigi færra en Mazdan eða 129. Citroen C4 Picasso varð svo nr. fjögur  með 100 stig og VW Golf í því fimmta með 97 stig.

FDM í Danmörku, systurfélag FÍB kemur að vali á bíl ársins þar eins og FÍB gerir á Íslandi. Blaðamaður á Motor, félagsriti FDM gefur Skoda Octavia þá umsögn að þetta sé góður bíll og með því að kaupa hann fái fólk óvenju mikið fyrir tiltölulega lítið fé miðað við sambærilega bíla. Rýmið í Skódanum, ekki sýst farangursrýmið og plássið í aftursætinu sé í sérflokki miðað við aðra í sama stærðarflokki.