Danir herða lög um áfengisakstur

Um sl. mánaðamót tók gildi í Danmörku ný lög um endurheimt ökuréttinda eftir dóm fyrir áfengisakstur. Endurheimt ökuréttindanna er nú háð því að í bíl hins dæmda verði sett ræsivörn sem gerir ómögulegt að gangsetja bílinn fyrr en ökumaður hefur blásið í munnstykki á búnaðinum og búnaðurinn ekki mælt neinn áfengisþef í blæstrinum.

Kostnaðurinn við að setja búnaðinn í bílinn er metinn á 20—25 þúsund danskar krónur eða 4-5 hundruð þús. ísl kr. og þarf eigandinn sjálfur að kosta því til. Réttindamissir er yfirleitt tvö ár en sé ökumaður ekki tilbúinn til þess að kosta ísetningu ræsivarnarbúnaðar í bíl sinn, getur hann neyðst til að bíða í tvö ár til viðbótar áður en hann fær bílprófið aftur.

Í frétt á heimasíðu danska dómsmálaráðuneytisins segir Mette Frederiksen dómsmálaráðherra að áfengi sé en helsta ástæða þess að fólk slasast eða deyr í umferðinni og að engin afsökun sé finnanleg fyrir akstri undir áfengisáhrifum. Ræsivarnarbúnaðurinn sé eitt þeirra verkfæra sem beita þurfi til að útrýma áfengisakstri auk stöðugs eftirlits lögreglu.

http://fib.is/myndir/Afengi1.jpg

Fyrir að hafa ekið með allt að 2 prómill áfengis í blóðinu og brotið er ekki það fyrsta, missa hinir brotlegu ökuréttindin í tvö ár. Að þeim tíma liðnum gefst þeim kostur á að fá ökuskírteinið til baka gegn því að fá áfengisræsivörn í bílinn og jafnframt að gangast undir rannsókn á því hvort eða á hve háu stigi áfengisvandamál viðkomandi er. Ennfremur verða þeir að sæta áfengismeðferð og sitja auk þess sitja námskeið í umferðarlögum og -reglum. Þiggi fólk hvorugt, verður það einfaldlega að bíða í önnur tvö ár eftir því að endurheimta ökuréttindin.   

En hafi áfengismagnið mælst vel undir tveimur prómillum, ekkert slys orðið, brotið er það fyrsta og sá brotlegi á sér ekki sögu misnotkunar á áfengi, getur viðkomandi sótt um að endurheimta ökuréttindin eftir eins árs sviptingu gegn því að áfengisræsivörn verði í bíl hans.

En meginskilyrðin fyrir að endurheimta ökuréttindin eftir annarsvegar tvö ár eins og í fyrra dæminu og eftir eitt ár í því síðara, eru þau að áfengi í blóði eftir fyrsta brot hafi ekki farið yfir tvö prómill og eftir annað brot ekki yfir 1,2 prómill. Að öðrum kosti er fátt annað en ævilöng svipting í boði.