Danir vilja Kia Picanto

Smábílar hafa alla tíð átt mjög upp á pallborðið hjá Dönum og sumar tegundir þeirra meir en aðrar. Einmitt þessa dagana er hin nýja kynslóð smábílsins Kia Picanto mest seldi nýi bíllinn í landinu og er bókstaflega rifinn út og innflytjandinn hefur ekki undan að panta nýjar sendingar.

Nýi Picantóbíllinn var kynntur í Danmörku um miðjan júni og fyrsta sendingin seldist upp strax og nú er um það bil þriggja mánaða biðlisti eftir nýjum Kia Picanto vilji kaupendur fá bíl í sérstökum lit eða með búnaði umfram staðalbúnað. Sætti fólk sig hins vegar við ódýrustu staðalútgáfu og einhvern og einhvern lit, er biðtíminn styttri eða í kring um tveir mánuðir. Frá þessu er greint á fréttavef FDM, systurfélags FÍB í Danmörku.

Staðalgerð hins nýja Picanto kostar 94.000 danskar kr, eða tæplega 2,1 milljón ísl. kr. Allur búnaður umfram staðalbúnað, eins og sjálfskipting, hljómtæki, AC miðstöð (hitun/kæling) er skattlagður hver um sig um miklar fjárhæðir þannig að sæmilega búinn Kia Picanto kostar allt að 140 þúsund danskar krónur eða 3,1 milljón íslenskar krónur. En það merkilega er að langflestir þeirra sem kaupa nýjan Picanto um þessar mundir vilja einmitt vel búnu og dýru gerðirnar.

Sala á nýja Picantóinum hófst í mestallri Evrópu um miðjan júní sl. Bílnum hefur allsstaðar verið ágætlega tekið og vart hefst undan að framleiða upp í eftirspurn. Miðað við hver hún er og hefur verið í Danmörku stefnir í það að Picanto verði söluhæsti smábíllinn þar í landi á árinu, það er að segja ef innflytjandanum tekst að útvega þá bíla sem kaupendur hafa þegar skráð sig fyrir.