Danskar konur treysta seljendum notaðra bíla aðeins of vel

http://www.fib.is/myndir/Konaogbill.jpg

FDM, systurfélag FÍB í Danmörku hefur fengið Gallup til að spyrja 214 konur um hvernig þær báru sig að við kaup á notuðum bíl. Rannsóknin sýnir að konurnar vildu treysta orðum seljenda einum of vel og létu hjá líða að spyrja mikilvægra spurninga um bílinn og setja ákveðna fyrirvara gagnvart hugsanlegum bilunum eða fyrirsjáanlegu viðhaldi og endurnýjun slithluta.

Könnunin sýnir að flestar kvennanna reynsluóku bílunum áður en kaupsamningur var undirritaður. En einungis um helmingur þeirra vildi sjá smur- og viðhaldsbók bílsins og spurði um fyrri viðgerðir og viðhald á bílnum og hvort hann hefði lent í tjóni og hve miklu. Fæstar þeirra spurðu út í mikilvæg atriði eins og hvaða viðhaldsvinna eða viðgerðir væru framundan, eins og t.d. hvenær síðast var skipt um t´mareim og hvenær næst ætti að skipa um hana.

Eins og tækniráðgjafar FDM og FÍB þekkja af langri reynslu er það sjaldgæft að notaðir bílar séu í fullkomnu standi eins og um nýjan bíl sé að ræða. Mjög algengt er að notaðir bílar séu einmitt seldir rétt áður en kemur að endurnýjun ýmissa slithluta eins og tímareima, hemlaborða, -klossa og -diska. Ekki síst þessvegna ættu bílakaupendur alltaf að fá bílinn ástandsskoðaðan áður en kaupsamningar eru undirritaðir. Það getur sparað mörg leiðinda eftirmál og vandræði síðarmeir.

Samkvæmt dönsku rannsókninni fékk aðeins þriðja hver kvennanna (35%) fagmann í lið með sér til að skoða bílinn áður en kaupin voru fest. Tæplega fjórða hver þeirra (23%) lét undir höfuð leggjast að athuga hvort eitthvað hvíldi á bílnum áður en kaupsamningur var undirritaður og aðeins fjórðungur (24%) setti fyrirvara inn í kaupsamninginn um að bíllinn væri í því ástandi sem sagt var, áður en að undirritun kom.

Þegar þessi kvennarannsókn er borin saman við samskonar rannsókn á háttum karla við bílakaup kemur í ljós að konurnar eru heldur slakari við að krefja seljanda um undirritaða ástandslýsingu. 40% þeirra segja að engin ástandslýsing hafi verið til þegar kaupin voru gerð en 33% karlanna. Aftur á móti eru konurnar mun duglegri við að fá afslátt af uppsettu verði og 27% þeirra fengu 112 þúsund króna afslátt eða meiri.

Skrifleg ástandslýsing seljanda er mjög mikilvægt plagg. Í henni lýsir seljandi kostum bílsins og því sem honum á að fylgja. Ef hún er einungis munnleg og bíllinn síðan bilar í höndum nýs eiganda eða í ljós kemur að hann er ekki á einhvern hátt í samræmi við það sem seljandi sagði, er allur málarekstur síðar mjög erfiður.

Þegar konur eru í bílakaupahugleiðingum leita þær I mun meiri mæli ráða hjá fjölskyldu og vinum en karlarnir. 73% kvennanna í rannsókninni ákváðu kaup á tegund og gerð notaðra bíla í samræmi við ráð eiginmanna/sambýlismanna meðan einungis helmingur karlanna ákvað sig í samræmi við ráð frá eigin-/sambýliskonu.

Konur leggja miklu meira upp úr öryggi og öryggisbúnaði en karlar. 34% kvenna segja að öryggið sé mikilvægasti þátturinn í vali á notuðum bíl en einungis 15% karlanna. 
En hið mikilvægasta er þó verðið að mati 37% þeirra.

Konurnar sem þátt tóku í könnuninni voru á aldrinum 25-49 ára. Þær höfðu allar fest kaup á notuðum bíl innan síðustu þriggja ára. Rúmlega þriðja hver þeirra (37%) hafði keypt bíl hjá bílaumboði, rúmlega fimmtungur (22%) á almennri bílasölu en 40% höfðu keypt bíla sína beint af fyrri eiganda.

Langflestar (77%) keyptu bíl sem kostaði undir 1,4 millj. ísl. kr. meðan um þriðjungur vildi ekki eyða yfir 600 þúsund krónum í bíl. 32% keyptu bíla sem voru eldri en 10 ára meðan 22% vildu ekki eldri bíla en fimm ára gamla.