Danskir bifreiðaeigendur fláðir

Danska ríkið innheimtir hlutfallslega meiri bílaskatta en nokkurt annað land í Evrópusambandinu – bæði skatta af bílunum nýjum og síðan notkunarskatta. FDM sem er hið danska systurfélag FÍB segir að  afleiðing þessarar ofurskattheimtu sé sú að Danir séu nauðbeygðir til að aka um í bæði óöruggari og meira mengandi bílum en ökumenn annarra þjóða þar sem skattheimtan er ekki eins öfgafull.

Þessar upplýsingar um skattheimtu má lesa í nýrri samantekt sem ACEA – samband evrópskra bílaframleiðenda hefur látið gera. FDM hefur reiknað út að danska ríkið hafi haft tæplega 211 þúsund danskar krónur í notkunarskatta af meðalstórum fólksbíl eftir 12 ára notkun bílsins. Það jafngildir rúmlega 4,6 milljónum ísl. kr. Þetta er tvöfalt hærra en að meðaltali í ES-ríkjunum og tæplega fjórfalt meira en Spánverji greiðir í notkunarskatta af samskonar bíl á jafnlöngum notkunartíma.

En það eru ekki bara notkunarskattarnir (Eldsneytisskattar, bifreiðagjöld eftir þyngd bílsins og grænir skattar) sem eru hæstir í Danmörku. Þegar nýr bíll er keyptur þarf að greiða af honum skráningargjald sem er 105 prósent af verði bílsins sé það lægra en 79 þ. dkr. (rúml. 1,7 millj. ísl. kr.). Sé verðið hærra er skráningargjaldið 180 prósent af verðinu. Loks leggst á nýja bílinn 25 prósent virðisaukaskattur. Kaupverð nýrra bíla í Danmörku er því mjög hátt, sérstaklega af miðlungs- og stærri fólksbílum. Sjá PDF-skjal hér.

Allt í allt er því mjög dýrt að eignast og eiga og reka bíl í Danmörku, en segja má þó að þar sem almannasamöngur eru góðar og góð aðstaða er til reiðhjólaferðalaga geta mjög margir Danir svosem verið án bíls. Aðra sögu er hins vegar að segja í strjálbýlu landi eins og Íslandi með lítt nothæfar almannasamgöngur og erfiðar hjólreiðaaðstæður.

Ísland er reyndar ekki inni í þessari athugun ACEA en fullyrða má þó að sem hlutfall af tekjum venjulegra launþega er bíleign hér á landi líklega ekki ósvipuð byrði á fjárhag heimilanna og hjá dönskum almenningi. Segja má þó íslenska ríkinu til hróss að það gengur ekki jafn hart fram í því að skattleggja bíla mismikið eftir stærð þeirra eða öllu heldur innkaupsverði.

En sameiginlegt er það með Danmörku og Íslandi að vátryggingar eru afar dýrar og sömuleiðis varahlutir og þjónusta, enda gerist það æ algengara að danskir bíleigendur skreppa yfir Eyrarsundsbrúna til Svíþjóðar, eða til Þýskalands til að láta gera við bíla sína eða þegar að því kemur að endurnýja hjólbarðana.

http://www.fib.is/myndir/ThomasMoellerThomsen.jpg
Thomas Møller Thomsen framkvæmda-
stjóri FDM.

„Eins og skattlangingin á bílana er samansett í dag er hún til bölvunar bæði fyrir umferðaröryggið og umhverfið. Afleiðing hennar er sú að mjög margir Danir aka í gömlum bílum sem eru ófullkomnari tæknilega og því bæði óöruggari en nýrri bílar almennt eru og meira mengandi. Þar á ofan er margvíslegur búnaður sem eykur öryggi nýrra bíla skattlagður sérstaklega og svo mjög að hann hreinlega er útilokaður frá landinu,“ segir Thomas Møller Thomsen framkvæmdastjóri FDM..

Hann segir ennfremur að þótt hin öfurháu skráningargjöld á nýja bíla yrðu aflögð væri Danmörk engu að síður eitt dýrasta landið til að eiga og reka bíl í 12 ár samfleytt. Ástæða þess er hversu gríðarlega háir eigna- og notkunarskattar eru lagðir á bíla og allar rekstrarvörur þeim tilheyrandi – bæði eldsneyti og varahluti og hversu tryggingaiðgjöld eru há.