Danskir bíleigendur vilja ekki niðurgreiða gjöld á rafbíla

Samkvæmt nýrri könnun sem FDM, systurfélag FÍB hefur gert í Danmörku, þá er meirihluti bifreiðaeigenda mótfallinn því að kaupendur hefðbundinna brunahreyfilsbíla greiði hærri aðflutnings-, notkunar- og skráningargjöld af nýjum bílum og taki þannig á sig gjaldaeftirgjöf á rafbíla eins og þeir hafa gert hingað til.

Danska ríkissstjórnin hyggst framlengja gjaldfrelsi rafbíla þegar núgildandi lög renna út um næstu áramót. Þegar lögin voru sett á var þess gætt að ríkið missti ekki spón úr aski sínum og var mismuninum jafnað yfir á kaupendur hefðbundinna bíla og gjöldin á þá hækkuð. Nýja könnunin sýnir að fólk telur nóg komið af slíku.

60 prósent þeirra 1.011 sem spurðir voru töldu það ýmist mjög ósanngjarnt eða ósanngjarnt að gera hefðbundnu bílana dýrkeyptari um leið og gjöldum væri aflétt af rafbílum. Einungis 16 prósent aðspurðra töldu það mjög sanngjarnt eða sanngjarnt.

Thomas Møller Thomsen framkvæmdastjóri FDM tekur undir með þeim fyrrnefndu og segir það slæman ávana stjórnvalda að þegar þau vilja auka hlutdeild rafbílanna með gjaldaeftirgjöf, sendi þau jafnan reikninginn áfram til venjulegra bíleigenda. Ósanngirnin felist ekki síst í því að þeir sem einkum kaupa rafbíla eru aðilar sem reka stóra bílaflota, t.d. sveitarfélög og bílaleigur og fráleitt sé að almennir bíleigendur taki þátt í að fjármagna bílakaup slíkra aðila.