Danskir brúartollar

Þeir sem hyggja á bílferðalög í sumar í og út frá Danmörku þurfa ekki lengur að vænta mikilla breytinga á brúartollum sem greiða þarf fyrir að aka yfir brýrnar yfir Stórabelti og Eyrarsund á nýju ári, svo fremi þeir séu á venjulegum fólksbíl eða sendibíl af minni gerðinni. Búið er nefnilega að uppreikna gjöldin út frá vísitölum og gefa út nýja verðskrá fyrir komandi ár. Veggjöldin fyrir fólksbílana yfir Stórabelti eru að mestu óbreytt en gjöldin um Eyrarsundsbrú hækka að meðaltali um 3 prósent.

Stök ferð yfir Stórabeltisbrú mun kosta það sama og hún hefur kostað þetta árið, eða 235 danskar krónur eða rétt um 5.100 ísl. kr. Það er verðið fyrir venjulegan fólksbíl eða sendibíl. Stök ferð á mótorhjóli yfir brúna kostar 125 DKR eða 2.700 ísl kr. Fyrir staka ferð á bíl með kerru, tjaldvagn eða hjólhýsi í eftirdragi þarf að greiða 360 DKR (7.810 ísl. kr.).

Ýmiskonar afslættir eru í boði. Þannig kostar helgarmiði fram og til baka um brúna á fólksbíl 410 DKR (tæpl. 8.900 ísl. kr.). Miði sem gildir fram og til baka alla laugardaga, sunnudaga og helgidaga kostar 375 DKR (8.140 ísl. kr.) og kvöld/næturmiði fram og til baka kostar 280 kr. (6.100 ísl. kr.).

Brúartollarnir yfir Eyrarsundsbrúna (sjá myndina) milli Kastrup og Malmö í Svíþjóð hækkar sem fyrr segir um 3% að meðaltali fyrir fólksbíla. Stök ferð kostar 335 DKR (7.270 ísl. kr.) og hefur hækkað um 217 ísl kr frá því sem verið hefur. Fyrir bíla með kerru, tjaldvagn eða hjólhýsi í eftirdragi sem og fyrir húsbíla og bíla yfir 6 m að lengd kostar staka ferðin 650 DKR (14.100 ísl. kr.). Stök ferð á mótorhjóli kostar 175 DKR (3.800 ísl. kr.).