Danskir eigendur Tesla kvarta undan lélegri viðhaldsþjónustu

-Það má ljóst vera að innflutnings- og þjónustuaðili Tesla bíla verður að taka sig rækilega á, segir danskur eigandi Tesla S rafbíls. Hann og fleiri Tesla eigendur kvarta mjög undan lélegri ábyrgðarþjónustu og óheyrilega langri bið eftir viðgerðum og almennu viðhaldi bílanna. Tesla S-eigandinn segir í samtali við danska ríkissjónvarpið að hann neyðist framvegis til að láta þjónusta bíl sinn í Þýskalandi.

Tesla eigandinn sem heitir Jacob Poulsen segist hafa gersamlega fallið fyrir bílnum eftir reynsluakstur sl. haust. Í bílnum sameinist hátækni, notagildi, afl, umhverfismildi og fyrirtaks aksturseiginleikar. Hann festi kaup á Tesla S  í nóvember sl. ár og var mjög ánægður með bílinn fyrst en fljótlega byrjuðu ýmsar truflanir og bilanir að ágerast Eftir 6-7 verkstæðisheimsóknir eftir allt að þriggja og hálfs mánaðar biðtíma eftir hverri þeirra á aðeins einu ári var Jacobi nóg boðið. Hann skráði þessa samskipta- og bilanasögu á vefsíðuna Trustpilot og ráðlagði öðrum Dönum frá því að kaupa Tesla þar til innflytjandi Tesla komi þjónustumálunum í viðunandi lag og geti haft undan að þjónusta bílana.

Tesla bíll Jacobs varð þó aldrei óökuhæfur en þær bilanir sem hrjáð hafa bílinn voru sumar óþægilegar. Þær lýstu á ýmsan hátt eins og titringur eða skjálfti þegar hemlað var, óvirkir hurðarhúnar í framhurðum þannig að ökumaður varð að fara inn í aftursæti og klifra síðan yfir bakið á ökumannsstólnum til að komast undir stýrið. Hann fékk flest vandamálin lagfærð á endanum til skiptis á þjónustuverkstæðum Tesla í Kaupmannahöfn og Árósum.

En bilanahrinan er ekki búin enn því að nýjar bilanir hafa síðan komið upp í hurðarhúnum og læsingum og skipta þarf um afturrúðu vegna þess að hemlaljós í rúðunni er óvirkt. Þá skelfur bíllinn á 140 km hraða á þýsku hraðbrautunum.

Jacob reyndi að panta verkstæðistíma enn einu sinni. Þegar hann loksins náði símleiðis í gegn til þjónustufulltrúa, var honum var sagt að það sé 2-4 mánaða bið eftir að komast að. Það telur hann óviðunandi, ekki síst þegar um jafn dýran bíl er að ræða sem auk þess mætti ætla að dygði nú heldur skár en raunin er. Hann hefur þessvegna pantað viðgerðatíma hjá Tesla í Hamborg í Þýskalandi en þar er biðtíminn einungis tvær vikur.

- Framvegis mun ég því aka til Þýskalands til að þjónusta bílinn, segir Jacob sem segist þrátt fyrir allt vera talsvert ánægður með sinn rafmagnsbíl.

Fréttastofa DR leitaði eftir svörum hjá innflytjanda Tesla. Upplýsingafulltrúi fyrirtækisins viðurkenndi að biðtími eftir viðgerðum hafi verið of langur og að símsvörun fyrirtækisins hefði ekki verið góð en sagði að á hvorutveggja hefði nú verið ráðin bót.