Danskir menntaskólanemar vilja stöðva draugabílana

http://www.fib.is/myndir/Draugabilstjori.jpg

Draugabílar og draugaakstur er það kallað þegar ökukmenn ýmist af ásetningsasnaskap eða af sauðshætti aka á móti umferð á hraðbrautum og vegum, ekki síst vegum með aðskildum akstursstefnum. Af þessum draugaakstri hafa orðið hroðaleg slys.

Fjórir unglingar sem stunda nám í tækniskóla í Horsens í Danmörku telja sig hafa fundið lausnina á vandamálinu. Þau hafa sett saman búnað sem stöðvar bíla draugabílstjóranna. Jafnframt hafa þau stofnað fyrirtæki um búnaðinn, smíði hans og þróun. Fyrirtækið nefnist OGIER Systems, en sjálfur búnaðurinn kallar uppfinningafólkið AGS, sem stendur fyrir Anti Ghost System.

AGS er rafeindakerfi. Hluti þess er búnaður sem komið er fyrir í afkeyrslubrautinni af hraðbraut og hinn hlutinn er búnaður í sjálfum bílnum. Tækið í bílnum les boð frá búnaðinum í veginum og ef bíllinn snýr öfugt við það sem hann á að gera drepur það á vélinni í bílnum og kveikir á stöðu-, og neyðarblikkljósunum. Bíllinn kemst því aldrei langa leið öfugt eftir afkeyrslubrautinni inn á hraðbrautina. Sé hann svo skilinn þar eftir sjá aðvífandi ökumenn hann langt að vegna þess að neyðarljósin blikka og stöðuljósin eru kveikt og draugabílstjórinn getur ekki slökkt þau, nema þá með því að aftengja rageyminn.

Draugaakstur móti umferð hefur lengi verið nokkurt vandamál í Evrópu. Ungir  karlmenn hafa t.d. stundað það að espa hverjir aðra upp í þetta athæfi, oft með skelfilegum afleiðingum. Í nýrri samgönguáætlun Dana sem sagt er frá hér, er ákvæði um að verja 10 milljónum danskra króna í varnir gegn draugabílstjórum. Vel kann því að vera að AGS kerfi menntaskólanemanna eigi framtíðina fyrir sér.