Dauðaslys í umferðinni

http://www.fib.is/myndir/Car-crash.jpg

Dauðaslysum í sænsku umferðinni fækkaði um rúmlega 10 prósent árið 2008 miðað við árið á undan. Árið 2008 fórust 420 í umferðarslysum í Svíþjóð og hafa dauðaslys þar ekki verið færri síðan árið 1945.

Sé miðað við fólksfjölda er Svíþjóð með næst lægstu dánartölu í umferðinni í heiminum á eftir Möltu, eða 4,5 látna á hverja 100 þúsund íbúa. Sérstaka athygli vekur að dauðsföllum barna í umferðarslysum fækkaði verulega á síðasta ári eða niður í 19 úr 32 árið 2007.

Svíar hafa undanfarin ár unnið markvisst að því að aðskilja akstursstefnur á vegum og umferð fótgangandi og bifreiða og að gera vega- og gatnakerfið almennt öruggara. Það hefur skilað merkjanlega færri dauðaslysum í framaná-árekstrum og ákeyrslum á gangandi vegfarendur. Undanfarin ár hefur, eins og hér á landi, fjölgað verulega mótorhjólum í sænskri umferð. Að sama skapi fjölgaði mjög dauðaslysum tengdum akstri mótorhjóla. Sú þróun virðist hafa snúist við á síðasta ári því að mótorhjólaslysum fækkaði úr 60 dauðaslysum árið 2007 í 51 árið 2008. Að öðru leyti telja Svíar að versnandi efnahagur landsmanna eigi einhvern þátt í fækkun dauðaslysa því að það hafi áhrif á umferðina, hverjir eru á ferðinni, hvenær og hversvegna.

Sænska vegagerðin telur það veigamikla þætti í fækkun banaslysanna að á síðasta ári bættust 300 kílómetrar við vegi þar sem akstursstefnur til gagnstæðra átta eru aðskildar. Þar með náði samanlögð lengd slíkra vega í sænska vegakerfinu 4 þúsund kílómetrum. Þá var hraðamyndavélum fjölgað og eru þær nú  tæplega þúsund talsins. Þessu til viðbótar hefur fimm stjörnu bílum fjölgað hlutfallslega í umferð, sem og bílum með ESC stöðugleikabúnaði en milli 97 og 98 prósent bíla í Svíþjóð eru nú með þann búnað.

Í frétt sænsku vegagerðarinnar koma fram vonbrigði með að ölvunartilfellum ökumanna fækkaði ekki milli ára og sá hópur sem ekki spennir öryggisbeltin í akstri minnkaði heldur ekkert. „Þróunin hefur verið í átt til öruggari umferðar sem er afar jákvætt, en það veldur vonbrigðum að sumt breyttist ekkert. Ennþá er það svo að um 25 prósent þeirra ökumanna sem láta lífið í umferðinni voru undir áhrifum áfengis og milli 40 og 45 prósent þeirra sem fórust í bílslysum notuðu ekki öryggisbeltin. Með því að hafa áhrif á þetta er hægt að auka almennt umferðaröryggi verulega,“ segir  Ingemar Skogö forstjóri sænsku vegagerðarinnar.

Eins og fram kemur í frétt hér á heimasíðunni frá 2. janúar sl. fækkaði dauðaslysum í umferðinni á Íslandi einnig. Sömu sögu er hins vegar ekki að segja frá  Danmörku og Noregi.