Dísilbílar betri umhverfiskostur en tvinnbílar

http://www.fib.is/myndir/Winterkorn.jpg
Dr. Martin Winterkorn.


-Þróun dísilvéla er áhrifaríkari kostur en þróun tvinnbíla til að draga úr útloftun CO2. Tvinnbílarnir eru vissulega lausn á sinn hátt, en þróun þeirra er miklu dýrari en þróun dísilvélanna sagði nýr framkvæmdastjóri Volkswagen, Martin Winterkorn við lok bílvélakaupstefnunnar EngineExpo í Stuttgart nýlega. Kaupstefnunni lauk fyrir helginu með sérstöku námskeiði undir yfirskriftinni –Þýski bílaiðnaðurinn og hið stórbrotna CO2 úrlausnarefni.-

Winterkorn sagði að vinnbílar kynnu að vera lausn í borgum eins og Tokyo þar sem umferð er gríðarleg og ökumenn híma í umferðaarhnútum og bílaröðum tímunum saman á hverjum einasta degi. –En ég er þess fullviss að á hraðbrautum Evrópu og Ameríku eru tvinnbílar engin lausn á CO2 útblástursvandanum. Það eru hins vegar nýju dísilvélarnar sem byggðar eru á nýjustu innsprautunartækni og með öragnasíur í útblásturskerfinu. Það eru líka smækkaðar vélar búnar bæði forþjöppu og túrbínu, en hvorar tveggja eru heppilegri fyrir okkar aðstæður en tvinnbílarnir sem bæði eru þyngri og plássminni vegna fyrirferðar tvinn-vélbúnaðarins, sagði Martin Winterkorn ennfremur.

Þýski bílaiðnaðurinn hefur gert háværar athugasemdir við nýju lögin um minni útblástur CO2 sem eru að taka gildi í áföngum á næstu árum. Hann sagði að mörgum hefði sýnst sem iðnaðurinn hefði með tali sínu lýst sig ráðþrota í því að ná markmiðum laganna um meðalútblástur upp á 130 grömm á kílómetra fyrir árið 2012. Þýski bílaiðnaðurinn væri hreint ekki ráðþrota og þyrfti ekkert að skammast sín. –Við eyðum óheyrilegum upphæðum árlega í það að þróa sífellt sparneytnari og hreinni en jafnframt minnst jafn öflugar vélar og náum stöðugt betri og betri árangri,- sagði Winterkorn.