Dísilmengunarmál Renault kærð

Niðurstöður rannsóknar sem sett var í gang í Frakklandi á meintri óleyfilegri mengun frá frönskum fólksbíladísilvélum hafa verið sendar dómstólum. Þeir munu skera úr um hvert framhald málsins verður. Reuters greinir frá þessu.

Sérstök rannsóknanefnd var sett á fót fyrir um ári, þegar Volkswagen pústsvindlmálið komst í hámæli. Nefndinni var ætlað að ganga úr skugga um hvort frönsku bílaframleiðendurnir hefðu aðhafst eitthvað svipað og VW. Það sem meðal annars benti til þess var sú staðreynd að mæld loftmengun í stærstu borgum Frakklands sem rakin er til dísilvéla hafði aukist langt umfram það sem ætla hefði mátt út frá stöðugt fullkomnari mengunarvarnabúnaði í dísilbílum mörg undanfarin ár og stöðugt lækkandi opinberum mengunartölum í gerðarviðurkenningarskjölum bílanna.

Þegar Volkswagenmálið var komið upp fyrir alvöru voru ýmsar aðrar tegundir dísilfólksbíla í Frakklandi mengunarmældar. Þá kom í ljós að nokkrar gerðir Renault dísilvéla gáfu frá sér óheilsusamleg mengunarefni eins og sótagnir og níturoxíðsambönd (Nox) langt umfram lögleyfð mörk. Þá hófst sú rannsókn sem nú er lokið. Skýrsla rannsóknanefndarinnar hefur verið send dómsmálayfirvöldum sem ákveða hvert framhaldið verður. Í stuttri tilkyningu frá rannsóknanefndinni segir ekkert um niðurstöðurnar heldur aðeins að nú sé það á valdi dómstóla að ákveða hvort gripið verði til frekari aðgerða vegna grunsemda um misgerðir (suspected failings). Nokkrir evrópskir fjölmiðlar greina hins vegar frá því að í ljós hafi komið verulegur munur á mengunarmælingum eftir því hvort þær voru gerða inni á skoðunarstöð eða í venjulegum akstri.