Dísilreykurinn heilsuvá?

Alþjóða heilbrigðisstofnunin WHO sendi nýlega frá sér skýrslu. Í henni er útblástur frá dísilvélum flokkaður sem mikil heilsufarsvá og sett í svipaðan hættuflokk og arsenik og sinnepsgas. Í kjölfarið hafa borgaryfirvöld í Osló sóst eftir því að banna alfarið umferð dísilbíla í borginni.

Þessi sömu yfirvöld hafa sem stendur heimildir til að takmarka eða jafnvel stöðva bílaumferð í borginni þá daga sem loftmengun er mikil. Mjög langt er orðið síðan þeirri heimild var síðast beitt. Samtök astma- og ofnæmissjúklinga í Noregi taka undir með borgaryfirvöldum Osló að banna dísilbílana þar og vilja auk þess leggja sérstaka vegatolla á dísilbílana.

En dísilbílar hafa orðið sífellt vinsælli í Osló og Noregi almennt ekki síður en annarsstaðar í Evrópu. Meginástæða þess er auðvitað sú hversu eyðsla þeirra hefur verið lítil samanborið við bensínbíla og CO2 útblástur þeirra er sömuleiðis lítill. Mjög margar tegundir og gerðir dísilknúinna fólksbíla flokkast af þessum ástæðum sem umhverfismildir og njóta eigendur þeirra góðs af því á margan hátt, m.a. í lægri sköttum, gjöldum og öðrum fríðindum.

Lengi hefur verið vitað að öragnir í dísilvélareyk eru krabbameinsörvandi og því hefur öragnasíum verið komið fyrir í útblásturskerfum þeirra í vaxandi mæli og eru velflestir nýir dísilfólksíblar nú með þann búnað. En engu að síður þá kemur meginhluti þeirra köfunarefnissambanda sem mælast í andrúmslofti borga frá dísilbílunum enda er góður helmingur nýrra bíla í Evrópu dísilbílar og sumsstaðar, eins og í Svíþjóð, eru dísilbílarnir tveir af hverjum þremur nýrra bíla.