Dísilvélarnar á útleið?

Miklar breytingar eru að verða á bílum um þessar mundir. Í okkar heimshluta jókst hlutur dísilknúinna fólksbíla mjög með tilkomu samrásar-dísilvélanna (common-rail) upp úr aldamótunum síðustu. Dísilvélar sem áður höfðu verið hæggengar, háværar og viðbragðsseinar gerbreyttust og fengu flesta kosti bensínvélanna en voru sparneytnari.

En smám saman jókst og breiddist út þekking á óæskilegum fylgifiskum dísilvélanna eins og sóti og skaðlegum efnasamböndum í útblæstrinum. Og svo kom „Dieselgate“-svikamál Volkswagen og fleiri bílaframleiðenda upp sem gróf undan vinsældum dísilvélanna. Hlutfall dísilbíla í nýskráningum fólksbíla í V. Evrópu sem þar til alveg nýlega var yfir 50% í heild og í sumum löndum upp í 80% fer nú hratt lækkandi. Nefna má Noreg sem dæmi: Fyrir fáum árum var nýskráningarhlutfall dísilbíla 75%. Það er nú hrapað niður í rétt rúm 30%.

Samkvæmt nýrri viðamikilli spá frá verkfræði- og greiningarfyrirtæki sem heitir AlixPartners mun nýskráningahlutfall dísilbíla í V. Evrópu falla úr um núverandi 50% niður í 9% á næstu 16 árum – til 2030. Ástæður þessa eru fyrst og fremst harðnandi kröfur um útblástur sem bílaiðnaðurinn mætir með aukinni rafvæðingu í drifbúnaði og nýtnari bensínvélum. Dísilvélin mætir afgangi í þessum breytingum vegna þeirra skaðlegu níturoxíðsambanda og sóts sem hún gefur frá sér. Við bætist svo það kjaftshögg sem fölsunarathæfi VW o.fl. greiddi henni. Dísilvélin er einfaldlega á útleið en rafmagnið kemur stöðugt meir í hennar stað. Vélar og drifbúnaður bíla verður skattlagður í vaxandi mæli eftir útblæstri og losun mengunarefna og skattar á dísilvélar þyngjast jafnt og þétt næstu árin.  

Þannig skiptast nýskráðir bílar í V. Evrópu niður eftir orkugjöfum 2030 að mati AlixPartners:

* 28% - Bensín-rafmagns tvinnbílar.
* 25% - Bensínbílar.
* 20% - Rafbílar með rafhlöðum.
* 18% - Tengiltvinnbílar með bensínvélum.
* 9%   - Dísilbílar.

Giacomo Mori, framkvæmdastjóri AlixPartners segir við Automotive News Europe að þessar breytingar muni hafa gríðarleg áhrif á almenning, bílaframleiðslugeirann og þá sem við hann starfa. Rafdrifnir bílar taki mjög miklum framförum nánast dag frá degi og stutt sé í það að meðaldrægi hreinna rafbíla á hverri rafhleðslu verði 300 kílómetrar sem dugi lang flestum bíleigendum fyllilega. Þá tekur hann dæmi af bílvélaverksmiðju sem nú framleiðir 400 þúsund bílvélar á ári. Beinn kostnaður við framleiðsluna sé 500 milljón evrur. Þessi sama verksmiðja geti byggt sama fjölda rafmótora í bíla fyrir einn tíunda hluta kostnaðarins og komist af með einn tíunda hluta þess mannafla sem brunahreyflaframleiðslan krefst.