Dregið hefur verulega úr sölu nýrra bíla

Verulega hefur dregið úr sölu á nýjum bílum fyrstu tvo mánuði ársins. Ef salan er borin saman við fyrstu tvo mánuði ársins 2018 nemur samdrátturinn rúmlega 40%. Nýskráðir fólksbílar fyrstu tvo mánuði þessa árs voru 1.647 en voru 2.782 á sama tímabili í fyrra.

Fram kemur í tölum frá Bílgreinasambandi Íslands að hlutfall sölu milli bílaleigubíla og sölu til almennings núna þegar kemur að fólksbílum er nokkuð sambærilegt við síðasta ár, eða um 36% til bílaleiga. Til samanburðar var hlutfall bílaleiga 37% árið 2018 og 39% árið 2017. 

Fram kemur ennfremur að hlutfall rafmagns- og tengitvinnbúla haldi áfrm að auka hlutfall sitt af seldum bílum, og eru þeir um 24% af heildarsölu fyrstu tvo mánuði ársins en voru um 21% allt árið í fyrra.

Áætlanir gerðu ráð fyrir nokkrum samdrætti í bílasölu á yfirstandandi ári. Samt sem áður er bílasala 20% undir áætlun þegar tölur fyrstu tvo mánuði ársins liggja fyrir.