Dreifbýlisrafbíll?

Lang flestir þeir rafbílar sem hafa verið markaðssettir í löndunum í kring um okkur hafa verið auglýstir fyrir íbúum borga og þéttbýlissvæða fyrst og fremst. Ástæðan er auðvitað takmarkað drægi þeirra samanborið við hefðbundna bensín- og dísilbíla. Breskur söluaðili General Motors fer hinsvegar þveröfuga leið með Chevrolet Volt og auglýsir hann sérstaklega meðal íbúa í dreifðari byggðum þar sem bensínið er dýrara en í stórborgunum.

Chevrolet Volt og systurbílarnir Opel og Vauxhall Ampera eru rafbílar. Drægið á rafgeymunum er í kring um 80 kílómetrar en þegar þeir tæmast fer bensínrafstöð í bílnum í gang og framleiðir nógan straum til að halda áfram för þar til bensínið klárast.  Framkvæmdastjóri hins umræddda breska GM söluumboðs heitir Mark Terry. Hann  segir við bílafjölmiðla að 80 km drægi á rafmagninu sé í langflestum tilfellum meira en nóg fyrir stærsta hluta bifreiðaeigenda og Volt bíllinn henti því dreifbýlisbúum ekkert síður og jafnvel betur en stórborgarbúum vegna þess hve bensínið sé yfirleitt mikið dýrara í dreifbýlinu en í stórborgunum og lengra út á næstu bensínstöð. Rafmagnið kosti hins vegar það sama allssstaðar og á öllum heimilum sé rafmagn og innstunga til að stinga Voltinum í samband. Niðurstaðan sé því sú að Voltinn sé hagstæðari í rekstri fyrir dreifbýlisbúa en hefðbundnir bensínbílar.

Mark Terry rekur annað tveggja söluumboða í Bretlandi fyrir Chevrolet Volt. Annað er í Wimbledon en hitt er í Cambridge en víðáttumikil landbúnaðarhéruð eru einmitt í kring um Cambridge.  Mark Terry segir að stærsti vandinn nú sé sá að hann fái ekki nógu marga bíla og miklu færri en hann pantar hverju sinni.