Dropinn holar steininn

FÍB hefur löngum kvartað yfir því að eldsneytisverðs til íslenskra neytenda sé óeðlilega hátt. Vissulega borgum við háa skatta af bensíndropanum. Það eru fáar aðrar neysluvörur hér á landi þar sem um helmingur útsöluverðsins er skattur í ríkissjóð.

Háir skattar á eldsneyti er eitt en hitt er há álagning. FÍB hefur árum saman bent á sterkar vísbendingar um að olíufélögin hafi mögulega með sér þegjandi samráð um að lækka ekki útsöluverð á eldsneyti þrátt fyrir lækkandi heimsmarkaðsverð á olíu. Samanburðurinn við Danmörku er sláandi, þar fylgir útsöluverðið heimsmarkaðsverðinu en hér var útsöluverðið nánast óbreytt í marga mánuði þrátt fyrir drjúga lækkun á heimsmarkaði.

Í byrjun aprílmánaðar var sterk umfjöllun á RÚV m.a. um óeðlilega hátt verð og fákeppni á íslenska olíumarkaðnum. Framkvæmdastjóri FÍB sagði m.a. í viðtali: „Hér er fákeppni og félögin nýta sér aðstöðuna til þess að skammta sér hærri álagningu en við sjáum í nágrannalöndum okkar“. Forstjóri Skeljungs reyndi að sverja þetta af öllum olíufélögunum í viðtali. Skýringar forstjórans voru lítt trúverðugar enda gerði FÍB alvarlegar athugasemdir við þær. Ýmsir aðilar komu fram í viðtölum m.a. forstjóri Samkeppniseftirlitsins og ráðherra neytendamála og gagnrýndu olíufélögin.

Fréttaflutningurinn og umræðan í samfélaginu virðist hafa náð til olíuforstjóra landsins. Bensín- og dísilolíuverð hefur lækkað frá upphafi umræðunnar og lítillega dregið úr álagningu. Bensínlítrinn hefur lækkað um allt að 8 krónur og dísillítrinn um yfir 10 krónur. Óþægileg umfjöllun í samfélaginu virðist hafa meiri áhrif á verðmyndun á íslenska olímarkaðnum en samkeppni í greininni.

Hér undir línurit um þróun bensínverðs frá 1. janúar 2022 til dagsins í dag í Danmörku og á Íslandi. Allir tölur uppreiknaðar yfir í íslenskar krónur á lítra.