Dýrasta og ódýrasta bensínverðið á Íslandi 2020 og 2021

FÍB hefur unnið töluleg gögn um daglegt bensínverð á heimsmarkaði og útsöluverð hér á landi árin 2020 og 2021. Tölurnar eru teknar saman sem meðaltöl fyrir hvern mánuð á þessu tveggja ára tímabili. Til samanburðar eru skattar á hvern lítra sundurliðað miðað við útsöluverðið hjá Costco annars vegar og hins vegar þar sem það er dýrast á þjónustustöðvum hjá N1 og Olís. Bensíngjöldin og kolefnisgjaldið er föst krónutala á hvern lítra og síðan leggst virðisaukaskattur ofan á kostnaðarverð með sköttum og álagningu. Það sem skýrir mismun af skattinum á hvern lítra hjá Costco og N1/Olís er virðisaukaskatturinn.

Línurit yfir þróun eldsneytisverð 2020 til 2021

Gögn um heimsmarkaðsverð bensíns á Mið-Evrópumarkaði eru uppreiknuð daglega miðað við gengi Bandaríkjadals gagnvart íslenskri krónu og tekin saman í mánaðarleg meðaltöl. FÍB hefur ekki upplýsingar um samninga hvers og eins olíufélags við sína birgja. Í mörg ár hafa öll olíufélögin keypt bensín af sama erlenda olíuframleiðslufyrirtækinu, Equinor ASA í Noregi sem áður hét Statoil. Costco hefur keypt bensín á íslenskum heildsölumarkaði af Skeljungi sem rekur Orkuna m.a.

Tafla yfir þróun eldsneytisverð 2020 - 2021

Í þessum gögnum er vísbending um álagningu undir liðnum, útsöluverð mínus kostnaðarverð.  Þetta eru eðlilega ekki tölur úr bókhaldsgögnum félaganna heldur tölfræðileg vísbending út frá heimsmarkaðsverði, útsöluverði og sköttum. Miðað við þessar forsendur hefur meðaltals álagning Costco yfir tveggja ára tímabil verið um 10 krónur á lítra en hjá N1/Olís nærri 44 krónur á lítra miðað við uppgefið útsöluverð frá dælu.

Það er athyglisvert að skoða tölurnar frá upphafi COVID-19 faraldursins í mars 2020 og næstu mánuði þegar heimsmarakaðsverð á eldsneyti hrapaði mikið á heimsmarkaði. Þar má sjá að álagning jókst bæði hjá N1 og Costco á meðan heimsmarkaðsverð var hvað lægst. Munurinn á milli Costco og N1/Olís var minnstur frá mars 2020 til júní 2020. Meðaltals mismunur á útsöluverði dýrustu bensíndropanna og þeirra ódýrustu yfir þetta tveggja ára tímabil er um 42 krónur á lítra.