Frumvarp um breytingar á lögum um vörugjald af ökutækjum samþykkt úr nefnd

 Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis samþykkti á fundi sínum í gær frumvarp um breytingar á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. (29/1993), bifreiðagjald (39/1988) og virðisaukaskatt (50/1988) með það að markmiði að koma í veg fyrir að ósamræmi skapist við álagningu skatta og gjalda á ökutæki sem að óbreyttu hefðu komið til framkvæmda þann 1. janúar næstkomandi. Í meðferðum nefndarinnar hafa verið gerðar breytingar á frumvarpinu í kjölfar ábendinga frá Tollstjóra, Bílgreinasambandnu, FÍB ofl.

Helstu breytingar eru þær að lagðar eru til breytingar á viðmiðum koltvísýringslosunar við álagningu vörugjalds á ökutæki og bifreiðagjalds auk þess sem gert er ráð fyrir að skilgreining sendibifreiðar verði lagfærð, vörugjaldi af tilteknum ökutækjum til vöruflutninga verði breytt, vörugjald af golfbifreiðum verði samræmt markmiðum um orkuskipti og að gerðar verði breytingar í því skyni að treysta hagsmuni ríkissjóðs við veitingu ívilnana.

Gert er ráð fyrir að málið fari nú til þriðju umræðu á Alþingi og atkvæði greidd á næstu dögum.